Spurt og svarað

Er sparisjóðurinn með app?

Nei sparisjóðurinn býður ekki upp á app en er að vinna að því snjalltækjavæða heimabankann. 

Það getur verið gott að vista hlekk á heimabankann í snjallsímanum þannig að hann sé aðgengilegur með einum smelli. Í Android er hægt að velja punktana þrjá efst í hægra horninu á vafranum og velja síðan Add to homescreen. Í iPhone er smellt á merkið sem birtist niðri fyrir miðju (lítur út eins og kassi með pílu sem vísar upp). Þegar ýtt er á merkið er hægt að velja Add to homescreen.

Hvernig get ég stofnað til viðskipta ef ég bý utan þjónustusvæðis sparisjóðsins?

Þjónustufulltrúi sendir þér umsóknir  sem þú þarft að skrifa undir og fá tvo votta til að staðfesta undirskrift þína. Þú sendir svo frumrit umsóknanna til þjónustufulltrúans ásamt afriti af gildum skilríkjum. Unnið er að stofnun reikninga og heimabanka með rafrænum skilríkjum. 

Þú þarft að vera sá fyrsti sem leggur inn á reikninginn með millifærslu af öðrum reikningi í þinni eigu. Það er ekki nóg að fara í annan banka með pening og biðja gjaldkera að leggja inn á reikninginn. Þetta er samkvæmt lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, no. 64, 2006 . 

Hvenær get ég fengið heimabanka?

Þegar þú hefur skrifað undir umsókn um heimabanka og valið þér notendanafn virkjar þjónustufulltrúi heimabanka fyrir þig. Þú þarft að vera orðin 15 ára til að geta stofnað heimabanka. 

Hvernig skrái ég mig inn í heimabankann?

Þú getur skráð þig inn með rafrænum skilríkjum eða með því að slá inn notendanafn og lykilorð og fá auðkenni með sms-i í farsímann þinn. 

Það kostar ekkert að skrá sig inn með rafrænum skilríkjum og það kostar ekkert að fá auðkenni sent með sms-i. 

Hvenær má ég fá debetkort?

Þegar þú ert með tékkareikning hjá sparisjóðnum þá getur þú fengið debetkort. Hægt er að stofna tékkareikning og fá debetkort frá 9 ára aldri. Ófjárráða þurfa að koma með forráðamanni að skrifa undir umsókn.  

Hvar finn ég pin-númerið mitt?

Pin-númer korta sparisjóðsins eru aðgengileg í heimabankanum þínum. Eingöngu er hægt að sækja pin-númer korta sem eru skráð á heimabankaeigandann sjálfan. Þjónustufulltrúar hafa ekki aðgang að pin-númerinu en geta haft samband við Valitor fyrir þig til að fá pin-númerið uppgefið. 

Í öryggisskyni minnum við á að það er með öllu óheimilt að láta öðrum pin-númerið í té eða geyma það með kortinu.

Hvað má ég millifæra mikið í heimabankanum?

Innan dags er hægt að millifæra allt að eina milljón króna (1.000.000 kr.). Ef þú þarft að millifæra hærri upphæð hafðu samband við sparisjóðinn því hægt er að hækka upphæðina tímabundið eða varanlega. 

Millifærslur sem eru hærri en 10.000.000 kr. fara í gegnum stórgreiðslukerfi Seðlabanka Íslands sem er lokað eftir klukkan 16:00 á daginn og opnar aftur klukkan 09:00 næsta virka dag. 

Ég millifærði í heimabanka eftir kl. 21 en ég sé ekki færsluna

Eftir klukkan 21:00 birtist millifærslan og bókast ekki fyrr en daginn eftir. 

Hvað eru rafræn skilríki?

Rafræn skilríki eru að verða grundvöllur öruggra rafrænna samskipta við hið opinbera, fjármálastofnanir og fyrirtæki. Til að eiga rafræn samskipti við þessa aðila þarftu að hafa slík skilríki til að auðkenna þig á öruggan hátt og einnig til að geta framkvæmt rafrænar undirritanir. Rafrænar undirritanir með fullgildum rafrænum skilríkjum eru að lögum jafngildar undirritun með penna. Þess vegna skaltu passa vel upp á rafrænu skilríkin þín og það pin-númer sem þú valdir þér.

Til að virkja rafræn skilríki þarftu að koma á skráningarstöð með símann þinn og gild skilríki (ökuskírteini, vegabréf eða nafnskírteini). Ef þú hefur skipt um sim-kort eða símanúmer þá þarft þú að virkja rafrænu skilríkin á nýja sim-kortið með því að koma á skráningarstöð með símann og gild skilríki. 

Ef þú týnir símanum þínum eða heldur að einhver hafi komist yfir rafrænu skilríkin þín þá skaltu hafa samband við Auðkenni (útgefanda rafrænna skilríkja) eða sparisjóðinn og láta loka skilríkjunum. Þú getur einnig haft samband við símfélagið þitt og óskað eftir lokun á sim-kortinu. Þá afturkallast rafrænu skilríkin sjálfkrafa og verða ónothæf. 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?