Af aðalfundi Sparisjóðs Suður-Þingeyinga

Af aðalfundi Sparisjóðs Suður-Þingeyinga

Gott sparisjóðaár.

Aðalfundur Sparisjóðs Suður-Þingeyinga var haldinn í Ljósvetningabúð 17. apríl sl.

Fundurinn var vel sóttur og mættu um 60 stofnfjáreigendur til fundar.

Fram kom að rekstur sparisjóðsins gekk vel á liðnu starfsári. Hagnaður af rekstri eftir skatta var 52 milljónir sem er um 8% ávöxtun eigin fjár. Innlán sparisjóðsins jukust á árinu um 20% og útlán um 28%.

Á árinu lauk stofnfjáraukningu sem hófst á árinu 2016. Í stofnfjáreigendahópinn bættust yfir 100 nýir stofnfjáreigendur og eru stofnfjáreigendur nú um 375. Sparisjóðurinn getur því með réttu talist fjöldahreyfing fólksins.

Sp. S.-Þing. glímir eins og önnur fjármálafyrirtæki við háar og kostnaðarsamar eiginfjárkröfur sem fara hækkandi og stefnir í að CAD eiginfjárkrafan verði 19,19% í ársbyrjun 2020. Til samanburðar má nefna að sambærileg eiginfjárkrafa á sparisjóðinn var 8% árið 2008 og stóð sjóðurinn þó af sér hrunið.

Á liðnu starfsári veitti sjóðurinn um 3,5 milljónum til samfélagslegra verkefna á starfssvæði sínu. Á aðalfundinum var Matarskemmunni ehf á Laugum veittur styrkur að upphæð kr 1.000.000- til eflingar heimavinnslu búsafurða í héraði.

Afgreiðslustöðvar sparisjóðsins eru þrjár, á Laugum, Húsavík og Reykjahlíð.

Sparisjóðsstjóri er Gerður Sigtryggsdóttir.