Sparisjóður Höfðhverfinga og Sparisjóður Austurlands hefja sameiningarviðræður

Stjórnir Sparisjóðs Höfðhverfinga ses. og Sparisjóðs Austurlands hf. hafa samþykkt að hefja formlegar viðræður um mögulega sameiningu sjóðanna til að skapa grundvöll til sóknar.

Með sameiningu munu þeir áfram geta stutt vel við einstaklinga og fyrirtæki á sínum starfssvæðum sem eru aðallega í Eyjafirði og á Austfjörðum. Staða hvors sjóðs um sig er sterk, eiginfjárhlutföll þeirra eru traust sem og lausafjárstaða.  Sameining sjóðanna er fyrst og fremst til að skapa grundvöll til stækkunar og sóknar.

Stærstu eigendur Sparisjóðs Höfðhverfinga eru KEA og Sænes ehf. en stærstu eigendur Sparisjóðs Austurlands eru Ríkissjóður og Fjarðabyggð.  Gangi sameiningin eftir mun KEA  leggja sameinuðum sjóði til umtalsvert nýtt eigið fé á næstu árum til frekari vaxtar.  Þannig verður til  traustur og vel fjármagnaður sparisjóður.

Jóhann Ingólfsson formaður stjórnar Sparisjóðs Höfðhverfinga:
“Ég tel þetta mjög jákvætt skref.  Mikilvægt sé að efla sparisjóðina til að gera þeim kleift að hagræða en ekki síður að gera þá vel búna til að stækka.  Við væntum mikils af þessum viðræðum.  Að okkar mati verður til vel fjármagnaður og traustur sparisjóður með sterkt kjölfestueignarhald.  Vonandi verður þetta upphafið að frekari sameiningum eða stækkunum sparisjóðanna því þeir munu verða til framtíðar áhugaverður og öðruvísi valkostur fyrir fólk og fyrirtæki á bankamarkaði.  Hugmyndafræði og nálgun okkar á þennan rekstur er annar heldur en stóru viðskiptabankanna.  Sparisjóðirnir eru minni, persónulegri og sveigjanlegri gagnvart okkar viðskiptavinum og við teljum okkur í ágætri stöðu til framtíðar á bankamarkaði“.

Jón Einar Marteinsson formaður stjórnar Sparisjóðs Austurlands:
“Ég tel að mörg tækifæri felist í samrunanum.  Vel fjármagnaður og sterkari sparisjóður mun geta þjónustað viðskiptavini sína enn betur og með meiri styrk en áður og stutt betur við þá spennandi atvinnuuppbyggingu og aðra jákvæða þróun sem nú á sér stað á starfssvæðum þessara tveggja sparisjóða. Sterkari sparisjóður mun einnig geta sinnt samfélagslegri ábyrgð sinni betur, en samkvæmt lögum rennur hluti hagnaðar í samfélagsstyrki. Arðsemi og skilvirkur rekstur er alltaf í forgangi en það er styrkur og sérstaða sparisjóðanna að þeir vinna með nærumhverfi sínu og láta gott af sér leiða og standa vörð um og þróa atvinnulíf, mannlíf og velferð á sínum starfssvæðum.  Ég tel einnig að sameiningin muni renna styrkari stoðum undir áframhaldandi rekstur allra sparisjóðanna og hugsanlega leiða til sameiningar fleiri sparisjóða þegar fram líður”.

 

Stjórnir Sparisjóðs Höfðhverfinga og Sparisjóðs Austurlands