1 - Byggðarlag án peninga

1106_MerkiÁrið 2020 er afmælisár, en á því ári verður Sparisjóðurinn 100 ára. Sparisjóður Norðfjarðar var stofnaður 2. maí 1920 en tók til starfa 1. september sama ár. Sjóðurinn bar nafnið Sparisjóður Norðfjarðar til ársins 2015 en þá var nafni hans breytt í Sparisjóður Austurlands. Á afmælisárinu verða birtir þættir um sögu sjóðsins á heimasíðu hans, en í þeim verður einnig fjallað almennt um sögu sparisjóða á landinu.

Nú á tímum á fólk á Íslandi erfitt með að hugsa sér samfélag án peninga. Engu að síður er það staðreynd að það er tiltölulega skammt síðan notkun peninga hófst í daglegu lífi og peningastofnanir hófu starfsemi. Hér skal vikið að því hvernig viðskipti fóru fram á fyrri tíð án þess að peningar kæmu við sögu og er Norðfjörður sögusviðið.

Segja má að viðskiptahættir hins forna bændasamfélags hafi verið við lýði á Norðfirði allt fram á áttunda áratug 19. aldar. Áhersla var lögð á landbúnað og aðeins róið til fiskjar á vorin og haustin og þegar færi gafst á milli slátta yfir sumartímann. Þrátt fyrir að oft aflaðist vel var lengi ekki litið á sjávarútveg sem sjálfstæðan atvinnuveg.
Frá einokunartíma til upphafs 19. aldar var Stóra-Breiðavík í Reyðarfirði verslunarstaður Norðfirðinga en eftir það versluðu Norðfirðingar við kaupmenn á Eskifirði og einnig í dálitlum mæli á Seyðisfirði. Þær afurðir sem norðfirskar fjölskyldur nýttu ekki á heimilunum voru yfirleitt fluttar á hestum til Eskifjarðar en talið var að frá Nesi í Norðfirði til Eskifjarðar væri 4-5 stunda lestargangur. Umframframleiðslunni var síðan skipt fyrir innfluttar vörur hjá kaupmönnunum og þær fluttar á klifberum heim. Þarna var um hreina vöruskiptaverslun að ræða og komu þar engir peningar við sögu.
Ekki var almennt farið að verka saltfisk til útflutnings að ráði á Austfjörðum fyrr en um og upp úr 1870. Fiskveiðar Færeyinga og síldveiðar Norðmanna urðu ekki síst til þess að opna augu Austfirðinga fyrir því hve hafið bjó yfir dýrmætum auðlindum sem unnt var að nýta. Útgerð og fiskverkun varð í reynd helsta ástæða þess að sjávarþorp tóku að myndast á Austfjörðum en lengi streittust bændur þó gegn þéttbýlismynduninni vegna þess að þeir töldu gjarnan að sjávarútvegur væri ekki atvinnugrein sem unnt væri að treysta á.

Þéttbýlismyndun á Nesi í Norðfirði
Með tilkomu saltfiskverkunar hófst þéttbýlismyndun á Nesi í Norðfirði.
Mynd: Skjala- og myndasafn Norðfjarðar.

Með tilkomu saltfiskverkunarinnar hófst þéttbýlismyndun á Nesi í Norðfirði. Á áratugnum 1870-1880 bjó á fyrri helmingnum að jafnaði 56 manns á Nesi en á þeim síðari 70 manns. Upp úr því tók fólki að fjölga mjög hratt og árið 1895 bjuggu 175 manns á því landssvæði sem síðar varð Neshreppur og Neskaupstaður. Það var einmitt árið 1895 sem Nes í Norðfirði fékk löggildingu sem verslunarstaður.
Fyrstu kaupmennirnir sem lögðu stund á fiskkaup á Norðfirði voru eskfirskir. Þeir reistu hús á Nesi fyrir starfsemi sína, svonefnd anleggshús eða fisktökuhús. Það var ekki fyrr en árið 1884 að Norðfirðingur aflaði sér verslunarleyfis en það var Sveinn Sigfússon. Þegar líða tók að aldamótunum bættust fleiri Norðfirðingar í hóp kaupmanna og leystu svonefnd borgarabréf. Með tímanum urðu tvær kaupmannaverslananna á Nesi langöflugstar; það var annars vegar verslun Sveins Sigfússonar, sem reyndar var farið að kenna við Sigfús son hans árið 1903, og hins vegar verslun Konráðs Hjálmarssonar. Höfðu bæði þessi fyrirtæki mikil umsvif á sviði útgerðar, fiskverkunar og verslunar. Auk heimamanna réðu þau yfirleitt til sín mikinn fjölda sjómanna og fiskverkafólks til starfa á þeim árstíma þegar mest var umleikis. Að auki hófu öflugustu kaupmannaverslanirnar að kaupa fisk til verkunar af erlendum veiðiskipum. Það var ekki síst starfsemi þessara fyrirtækja sem leiddi til þess að Norðfirðingum fjölgaði áfram hratt. Árið 1905 voru íbúar Nesþorps 355 talsins og á því ári hófst útgerð vélbáta. Árið 1913, þegar þorpið var aðskilið frá sveitinni, voru íbúar þess orðnir 636.

Vöskun á saltfiski
Unnið við vöskun á saltfiski hjá verslun Sigfúsar Sveinssonar.
Mynd: Skjala- og myndasafn Norðfjarðar.

Nær undantekningarlaust þekktu heimamenn ekki annað en peningalaus viðskipti á þessum tíma. Kaupmennirnir tóku við framleiðsluvörum viðskiptavinanna og létu þeim í té almenna verslunarvöru í staðinn. Eins greiddu kaupmennirnir vinnulaun með því að launþegarnir tóku út vörur í verslunum þeirra. Peningar sáust ekki í hefðbundnum daglegum viðskiptum. Á þessu var þó ein undantekning. Upp úr aldamótunum 1900 hóf enskur fiskkaupmaður að kaupa fisk af norðfirskum útgerðarmönnum og borgaði hann fiskinn með peningum. Þessi fiskkaupmaður hét Pike Ward og keypti hann smærri fisk sem áður hafði vart verið seljanlegur. Fiskurinn var verkaður samkvæmt aðferð sem upprunin var á Labrador og var hann ýmist nefndur Labradorfiskur eða Labri eða þá Wardfiskur eða Vorðari. Naut Ward fiskkaupmaður mikilla vinsælda vegna þessara viðskipta en umboðsmaður hans á Norðfirði var Jón Guðmundsson sóknarprestur.

Unnið á saltfiskreit snemma á 20. öldinni
Unnið á saltfiskreit snemma á 20. öldinni.
Mynd: Skjala- og myndasafn Norðfjarðar.

Snemma á 20. öldinni gerði norðfirskur verkalýður fyrst tilraun til að stofna verkalýðsfélag og berjast fyrir bættum kjörum, en það gekk erfiðlega. Eitt helsta baráttumálið var að fá laun greidd í peningum en á því sviði náðist lengi vel enginn árangur. Kaupmennirnir voru í þeirri stöðu að ákveða laun fólks auk þess sem þeir verðlögðu vörurnar í verslunum sínum. Vegna þessa var oft sagt að verkalýðurinn væri þrælbundinn á klafa kaupmannanna.
Vegna aðkomufólks sem kaupmennirnir á Nesi réðu til starfa og vegna fiskkaupa úr erlendum skipum þurftu þeir þó á peningum að halda. Þá þurftu kaupmennirnir að senda menn til að sækja peninga í útibú Íslandsbanka á Seyðisfirði og síðar í útibú Landsbankans á Eskifirði. Nánar verður greint frá þessum fyrstu peningastofnunum á Austurlandi og sendiferðum til þeirra í næsta þætti.