Saga sjóðsins

Hér er birt stutt yfirlit um sögu Sparisjóðs Austurlands sem lengst af bar nafnið Sparisjóður Norðfjarðar. Þeir sem vilja kynna sér sögu sjóðsins frekar er bent á ritið Sparisjóður í 70 ár sem kom út árið 1992.

Aðdragandi stofnunar

Þann 5. apríl árið 1919 var fyrst fjallað um þá hugmynd að stofna Sparisjóð á Norðfirði. Málið var tekið fyrir á fundi Málfundafélagsins Austra og hafði Stefán Stefánsson kaupmaður framsögu. Á fundinum var ákveðið að kjósa þriggja manna nefnd til að kanna möguleikann á sjóðsstofnun og voru þeir Stefán Stefánsson, Björn Björnsson og Vilhjálmur Benediktsson kjörnir í hana. Hóf nefndin þegar störf og samdi bréf sem sent var út þar sem einstaklingum var boðið að ábyrgjast ákveðna fjárupphæð fyrir væntanlegan sparisjóð.

Upphaf bréfsins var svofellt:

Það er víst flestum ljóst hjer, hve afar óþægilegt það er að hafa enga peningastofnun hjer í þorpinu. Þurfi menn á nokkrum krónum að halda, þá þarf að senda í aðrar sveitir eða jafnvel í aðrar sýslur, og ef menn eiga einhverja peninga sem þeir þurfa ekki að nota í svipinn, verða þeir að liggja með þá rentlausa tímum saman.

Áfram hélt undirbúningsvinnan og ákvað Málfundafélagið að bæta tveimur mönnum við sparisjóðsnefndina sem áður hafði verið kosinn. Fyrir valinu urðu Páll Guttormsson Þormar og Ingvar Pálmason. Nefndinni gekk greiðlega að fá ábyrgðarmenn fyrir væntanlegan sjóð og undirrituðu tuttugu einstaklingar ábyrgðarbréf. Þegar söfnun ábyrgðarmanna var lokið hófst nefndin handa við að semja lög fyrir sjóðinn og undirbúa stofnun hans að öðru leyti.

Stofnun og upphaf starfsemi

Þann 2. maí árið 1920 héldu ábyrgðarmennirnir stofnfund sjóðsins. Á fundinum voru lög hans samþykkt og samkvæmt þeim bar hann heitið Sparisjóður Norðfjarðar. Á stofnfundinum var einnig kjörin þriggja manna stjórn sem ætlað var að annast starfsemi sjóðsins. Í stjórninnni voru Páll Guttormsson Þormar formaður, Ingvar Pálmason bókari og Sigdór V. Brekkan gjaldkeri. Tilkynning um stofnun sjóðsins var síðan birt í Lögbirtingarblaðinu 2. september.

Lögin sem samþykkt voru á stofnfundinum voru í 18. greinum og var 1. greinin svofelld:

Sparisjóðurinn er stofnaður til að geyma og ávaxta fyrir íbúa Norðfjarðar peninga; þó tekur hann einnig geymslufé af utansveitarmönnum. Stjórnendur sjóðsins skulu eiga heima í Nesþorpi.

Miðvikudaginn 1. september árið 1920 kl. 14:00 hóf Sparisjóður Norðfjarðar starfsemi sína. Afgreiðsla sjóðsins í upphafi var á símstöðinni í húsinu Adamsborg. Þennan dag var alls lagt inn á 43 sparisjóðsbækur auk þess sem sjóðurinn keypti tvo víxla á kr. 100 hvorn.

Mikilvægt hlutverk í samfélaginu

Starfsemi Sparisjóðs Norðfjarðar fór vel af stað og þegar á árinu 1924 reyndist nauðsynlegt að ráða starfsmann að honum. Fyrsti starfsmaðurinn var Tómas Zoega og var hann í bókum sjóðsins fyrst nefndur bókari eða starfsmaður, síðan framkvæmdastjóri og loks sparisjóðsstjóri. Tómas mótaði mjög starfsemi stofnunarinnar, en auk þess að gegna starfi sparisjóðsstjóra var hann kjörinn stjórnarformaður árið 1932.
Sparisjóður Norðfjarðar fullnægði ágætlega þörfum hins almenna íbúa en þegar atvinnurekendur í ört vaxandi útgerðarbæ þurftu meiriháttar fyrirgreiðslu þurftu þeir gjarnan að snúa sér til útibús Landsbankans á Eskifirði. Fljótlega hóf sparisjóðurinn að gegna einskonar umboðshlutverki fyrir Landsbankann á Eskifirði til að auðvelda viðskipti Norðfirðinga við bankann.
Umsvifin í atvinnulífinu hafa eðlilega haft mikil áhrif á starfsemi sparisjóðsins. Öflugt atvinnulíf hefur eflt hann en efnahagslegur samdráttur hefur gert stöðu hans erfiðari. Sjóðurinn hefur ávallt reynt eftir mætti að stuðla að uppbyggingu fyrirtækja og eins hefur hann meðal annars veitt einstaklingum fyrirgreiðslu til húsbygginga og eða íbúðakaupa. Það fer ekkert á milli mála að Sparisjóður Norðfjarðar hefur gegnt veigamiklu hlutverki á starfssvæði sínu og átt sinn þátt í að gera það öflugt.
Lengi var barist fyrir því að opnað yrði bankaútibú í Neskaupstað en tilkoma slíks útibús var álitin mikilvæg fyrir atvinnufyrirtækin á staðnum. Þegar viðræður hófust við Landsbankann var jafnvel gert ráð fyrir að hann myndi yfirtaka Sparisjóð Norðfjarðar ef til þess kæmi að útibúi yrði komið á fót. Að því kom að Landsbankinn opnaði útibú árið 1974 en þá hafði hann horfið frá þeirri stefnu sinni að forsenda tilkomu útibúsins væri yfirtaka á sparisjóðnum.
Að sjálfsögðu hafði tilkoma bankaútibús veruleg áhrif á starfsemi Sparisjóðsins en engu að síður hélt sjóðurinn áfram sínu öfluga starfi. Forsvarsmönnum sjóðsins var ljóst að hvergi mætti slaka á þjónustunni því útibúið væri erfiður keppinautur með sterkt bakland. Til að standa vörð um hagsmuni sparisjóðanna í landinu hafði Samband íslenskra sparisjóða verið stofnað árið 1967 og átti sambandið eftir að verða hinum einstöku sjóðum haukur í horni í því samkeppnisumhverfi sem þeir bjuggu við.
Undir lok 20. aldarinnar hóf Sparisjóður Norðfjarðar að skilgreina starfssvæði sitt með öðrum hætti en gert hafði verið og fór í reynd að horfa á það sem markmið að hafa viðskipti um allt Austurland. Bein afleiðing af þessu var opnun afgreiðslu á Reyðarfirði árið 1998 og var hún starfrækt til ársins 2012. Einnig stóð til að sjóðurinn opnaði afgreiðslu á Egilsstöðum en af því varð ekki.

Uppgangur, hrun og endurreisn

Á tíunda ártug síðustu aldar gekk rekstur sparisjóðsins vel. Á árunum 1990-2000 var hagnaður af starfseminni öll árin og eigið fé sjóðsins jókst jafnt og þétt. Þegar kom fram á nýja öld varð uppgangur hins íslenska efnahagslífs ævintýralegur og hafði það svo sannarlega áhrif á starfsemi Sparisjóðs Norðfjarðar; innlán jukust mjög og útlán einnig.
Ár frá ári jókst hagnaður af starfsemi sjóðsins og fjárfesti hann í nokkrum mæli í hlutabréfum sem gáfu góðan arð þó ekki væru þær fjárfestingar hlutfallslega jafn miklar og hjá mörgum öðrum fjármálastofnunum. Á árunum 2006 og 2007 fór að bera á því að utanaðkomandi fjárfestar tóku að bjóða svimandi upphæðir í stofnfé sjóðsins. Stofnfjáreigendurnir eða ábyrgðarmenn sjóðsins létu hins vegar ekki freistast og enginn þeirra seldi.
Áfallið mikla átti sér stað í októbermánuði 2008. Þá hrundi íslenska efnahagskerfið með alvarlegum afleiðingum fyrir samfélagið allt og ekki síst fjármálastofnanir.
Sparisjóður Norðfjarðar tapaði miklu í hruninu rétt eins og aðrar sambærilegar stofnanir. Fljótlega hófust aðgerðir til að bjarga sjóðnum frá því að fara í þrot. Farið var fram á að ríkisvaldið kæmi að því að laga eiginfjárstöðu hans en þá var það skilyrði sett að sjóðurinn sjálfur myndi útvega fjármuni til að bæta stöðu sína áður en ríkið kæmi að því verkefni. Leitað var til sveitarfélagsins Fjarðabyggðar og fyrirtækja í Neskaupstað og urðu viðbrögðin jákvæð. Þessari fjárhagslegu endurskipulagningu sjóðsins lauk árið 2010.
Árið 2011 var mikið fjallað um stöðu Sparisjóðs Norðfjarðar og komst stjórn hans að þeirri niðurstöðu að skynsamlegast væri að selja hann. Sparisjóðum hafði fækkað mjög og Samband íslenskra sparisjóða veikst og var álitið að hagsmunum stofnfjáreigenda, starfsfólks og viðskiptavina væri best borgið með því að selja sjóðinn öflugum banka. Ákveðið var að auglýsa stofnfé sjóðsins til sölu í opnu söluferli. Eftir könnunarviðræður við þrjá banka var hins vegar fallið frá sölunni og hélt sjóðurinn áfram starfsemi sinni.
Á aðalfundi sparisjóðsins árið 2015 var lögð fram tillaga um að breyta sjóðnum í hlutafélag en breytingin var álitin þjóna hagsmunum eigenda, starfsfólks og viðskiptavina. Tillagan var samþykkt og hlaut félagið nafnið Sparisjóður Austurlands. Breytingin á nafninu var gerð til að leggja áherslu á að starfssvæði sjóðsins væri Austurlands allt.
Síðustu ár hafa innviðir Sparisjóðs Austurlands verið styrktir, lausafjárstaðan verið góð og útlán aukist jafnt og þétt.

Sparisjóðsstjórar

Vart verður annað sagt en festa hafi einkennt starfsemi sparisjóðsins. Stjórnarmenn hafa gjarnan setið lengi og það sama á við um forstöðumenn sjóðsins, sparisjóðsstjórana. Frá því fyrst var ráðinn forstöðumaður hafa einungis sex einstaklingar gegnt starfi sparisjóðsstjóra og eru þeir eftirtaldir:

  • Tómas Zoëga 1926-1955
  • Jón Lundi Baldursson 1955-1976
  • Sigfús Guðmundsson 1976-1979
  • Ragnar Á. Sigurðsson 1979-1988
  • Sveinn Árnason 1988-2004
  • Vilhjálmur G. Pálsson 2004-
Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?