Sparisjóður Austurlands 100 ára

Sparisjóður Austurlands 100 ára
Sparisjóður Austurlands 100 ára

Sparisjóður Austurlands, sem áður bar nafnið Sparisjóður Norðfjarðar, verður 100 ára á þessu ári. Sjóðurinn var stofnaður 2. maí árið 1920 og hóf starfsemi 1. september það ár. Sparisjóðurinn er sá eini sem starfandi er á Austurlandi og einn af fjórum sjóðum sem starfa á landinu en flestir urðu sjóðirnir rúmlega 60 talsins um 1960. Alls hafa tíu sparisjóðir verið stofnaðir á Austurlandi og er Sparisjóður Austurlands sá þeirra sem á sér langlengsta sögu. Hinir sjóðirnir voru ýmist lagðir niður eða þeir voru yfirteknir af bönkum. Frá upphafi var Neskaupstaður og Norðfjörður starfssvæði sjóðsins en undir lok síðustu aldar hóf sjóðurinn að skilgreina allt Austurland sem starfssvæði sitt og starfrækti meðal annars afgreiðslu á Reyðarfirði á árunum 1998-2012. Árið 2015 var félagsformi sjóðsins breytt í hlutafélag og þá var nafni hans jafnframt breytt úr Sparisjóður Norðfjarðar í Sparisjóður Austurlands. Tilgangur breytinganna var að efla sjóðinn og leggja áherslu á að starfssvæði hans væri Austurland allt.
Sparisjóður Austurlands mun minnast 100 ára afmælisins með ýmsum hætti á árinu og skal hér getið um þá dagskrárliði sem þegar hafa verið ákveðnir:

  • Þættir úr sögu sparisjóðsins. Smári Geirsson hefur ritað þætti um sögu sjóðsins og munu þeir verða birtir á heimasíðu og fésbókarsíðu hans ásamt athyglisverðum ljósmyndum. Gert er ráð fyrir að tveir til þrír þættir munu birtast í hverjum mánuði afmælisársins.
  • Skrifstofa sparisjóðsstjórans á gamla daga. Sett verður upp sýning í suðausturhluta afgreiðslu Sparisjóðsins þar sem sjá má dæmigerða skrifstofu og skrifstofubúnað frá þeim árum þegar Sparisjóðurinn var að festa rætur. Sýningin hefur nú þegar verið opnuð. Unnur Sveinsdóttir hafði umsjón með uppsetningu sýningarinnar.
  • Bíósýning fyrir börn. Um páskaleytið mun verða kvikmyndasýning fyrir börn og eru öll börn á starfssvæði sjóðsins velkomin á sýninguna.
  • Hátíðarfundur. Laugardaginn 2. maí nk. verður aðalfundur Sparisjóðsins haldinn og verður hann með sérstökum hátíðarbrag, en þennan dag verða liðin nákvæmlega 100 ár frá stofnun sjóðsins. Að loknum hátíðarfundinum verður samfélagsstyrkjum úthlutað.
  • Hátíðartónleikar í Egilsbúð. Að kvöldi 2. maí verður efnt til hátíðartónleika í Egilsbúð. Á tónleikunum munu meðal annars koma fram landsþekktir heimamenn. Allir íbúar á starfssvæði sjóðsins eru velkomnir á tónleikana.
  • Opið hús. Þriðjudaginn 1. september verður öllum boðið í heimsókn í Sparisjóðinn en þann dag verða liðin 100 ár frá því að hann tók til starfa.

Þess ber að geta að í tilefni afmælisins hefur listamaðurinn Hafsteinn Hafsteinsson hannað afmælismerki Sparisjóðsins. Merkið á að minna á fyrsta merki Sparisjóðsins.