2 - Fyrstu bankaútibúin á Austurlandi og sendiferðir til þeirra

Árið 2020 er afmælisár, en á því ári verður Sparisjóðurinn 100 ára. Sparisjóður Norðfjarðar var stofnaður 2. maí 1920 en tók til starfa 1. september sama ár. Sjóðurinn bar nafnið Sparisjóður Norðfjarðar til ársins 2015 en þá var nafni hans breytt í Sparisjóður Austurlands. Á afmælisárinu verða birtir þættir um sögu sjóðsins á heimasíðu hans, en í þeim verður einnig fjallað almennt um sögu sparisjóða á landinu.

Fyrstu bankaútibúin á Austurlandi og sendiferðir til þeirra

Það urðu ákveðin þáttaskil á Austurlandi þegar Íslandsbanki opnaði útibú á Seyðisfirði árið 1904. Með tilkomu slíkrar bankastofnunar þótti ýmsum Austfirðingum nútíminn hafa haldið innreið sína í landshlutann en þó ber að hafa í huga að áður hafði sparisjóðum verið komið á fót á Seyðisfirði og reyndar yfirtók Íslandsbanki Sparisjóð Seyðisfjarðar við stofnun útibúsins.
Þeir austfirsku atvinnurekendur sem þurftu á verulegum peningum að halda höfðu helst viðskipti við útibú Íslandsbanka á Seyðisfirði allt til ársins 1918 þó sparisjóðir störfuðu um skeið á þessu tímabili bæði á Vopnafirði og Eskifirði.
Árið 1918 kom Landsbankinn upp útibúi á Eskifirði og fyrir ýmsa Austfirðinga var hagkvæmara að hefja viðskipti við það. Rétt eins og Íslandsbanki gerði á Seyðisfirði yfirtók Landsbankinn Sparisjóð Eskifjarðar þegar hann stofnaði útibú sitt þar. Norðfirskir atvinnurekendur hófu strax viðskipti við Landsbankaútibúið og lá þá leiðin yfir Oddsskarð.
Enn lifa frásagnir frá þeim tíma þegar norðfirskir kaupmenn þurftu að senda menn eftir peningum í Íslandsbankaútibúið á Seyðisfirði á árunum 1904-1918. Það þótti bæði erfitt og áhættusamt að ráðast til slíkra ferða en sendimennirnar fóru fótgangandi á milli fjarðanna. Einn þeirra sem sinnti slíkum ferðum fyrir Konráð Hjálmarsson kaupmann var Sigurður Jónsson í Holti. Hér fylgja á eftir tvær sögur um samskipti kaupmannsins og sendimannsins vegna peningasendiferða til Seyðisfjarðar.

Konráð hjálmarsson kaupmaður
Konráð Hjálmarsson kaupmaður.
Mynd: Skjala- og myndasafn Norðfjarðar

Fyrri sagan greinir frá ferð sem Sigurður fór síðari hluta sumars. Áður en hann hélt af stað lagði Konráð ríkt á við hann að láta undir engum kringumstæðum setja sig á báti yfir Mjóafjörð á heimleið. Taldi kaupmaðurinn það of áhættusamt. Segir ekki af ferðum Sigurðar fyrr en hann kemur í Mjóafjörð á suðurleið. Veður var þá sem best varð á kosið, sólskin og stafalogn og fjörðurinn spegilsléttur. Þótti Sigurði illt að hafa bundist loforðum við Konráð en þar sem hann var maður bæði samviskusamur og húsbóndahollur gekk hann inn með firðinum og fyrir fjarðarbotn þar til kom að ánni. Áin var síður en svo árennileg en ekki þýddi um það að hugsa. Peningasendimaðurinn lagði út í hana og þegar hann var komin stutt frá bakkanum tók hún honum í mitti og var allstraumþung þannig að hann mátti hafa sig allan við. Með miklum erfiðismunum komst Sigurður yfir ána með peningana enda var hann þrekmaður mikill og fylginn sér. Er til Norðfjarðar kom skiptust þeir á kveðjum, Sigurður og Konráð kaupmaður, en að því loknu sagði sendimaðurinn sínar farir ekki sléttar og greindi frá því hve Mjóafjarðaráin hefði reynst sér erfið. Að lokinni ferðasögunni þagði kaupmaðurinn um stund en sagði síðan: “Hm, já. Ég steingleymdi bölvaðri ánni.”

Sigurður Jónsson í Holti, peningasendimaður
Sigurður Jónsson í Holti, peningasendimaður.
Mynd: Skjala- og myndasafn Norðfjarðar.

Síðari sagan segir frá samskiptum Sigurðar peningasendimanns og Konráðs kaupmanns eitt sinn þegar sendimaðurinn var í þann mund að leggja af stað til Seyðisfjarðar til að sækja peninga í Íslandsbankaútibúið. Kaupmaðurinn lagði sendimanninum lífsreglurnar mjög nákvæmlega og tilgreindi í smæstu atriðum hvernig hann ætti að haga för sinni. Þegar Konráð hafði lokið máli sínu spurði hann Sigurð hvort hann væri viss um að muna allar ferðareglurnar sem hann hafði yfirfarið svo nákvæmlega. “Já, ég er viss”, mun Sigurður hafa sagt. Þá leit kaupmaðurinn á sendimanninn með miklum alvörusvip og sagði síðan af miklum þunga: “Það er ekki nóg að vera viss, þú verður að vera sikker líka.”
Þessar frásagnir bera með sér að hlutverk peningasendimannsins hafi verið álitið bæði ábyrgðarmikið og erfitt. Þegar Landsbankaútibúið á Eskifirði var stofnað árið 1918 hófu norðfirskir atvinnurekendur að beina viðskiptum sínum þangað eins og fyrr greinir enda um auðveldari veg að fara en til Seyðisfjarðar.
Auðvitað fundu Norðfirðingar mikið fyrir þeim óþægindum sem fylgdu því að þurfa að leita eftir þjónustu peningastofnana í öðrum byggðarlögum og það hlaut að koma að því að þeir hæfu að velta því fyrir sér hvort ekki væri unnt að koma á fót peningastofnun í heimabyggð.