5 - Stofnun Sparisjóðs Norðfjarðar

Árið 2020 er afmælisár, en á því ári verður Sparisjóðurinn 100 ára. Sparisjóður Norðfjarðar var stofnaður 2. maí 1920 en tók til starfa 1. september sama ár. Sjóðurinn bar nafnið Sparisjóður Norðfjarðar til ársins 2015 en þá var nafni hans breytt í Sparisjóður Austurlands. Á afmælisárinu verða birtir þættir um sögu sjóðsins á heimasíðu hans, en í þeim verður einnig fjallað almennt um sögu sparisjóða á landinu.

Þann 2. maí árið 1920 héldu þeir sem gengist höfðu í ábyrgðir fyrir væntanlegan sparisjóð í Neskauptúni formlegan stofnfund sjóðsins. Á fundinum voru lög sjóðsins samþykkt og samkvæmt þeim bar hann heitið Sparisjóður Norðfjarðar. Á stofnfundinum var einnig kjörin þriggja manna stjórn eða forstöðunefnd og í henni áttu sæti eftirtaldir ábyrgðarmenn: Páll Guttormsson Þormar formaður, Ingvar Pálmason bókari og Sigdór V. Brekkan féhirðir. Því miður hefur fundargerð stofnfundarins ekki varðveist en tilkynning um stofnun sjóðsins birtist í Lögbirtingablaðinu 2. september.
Páll Guttormsson Þormar
Páll Guttormsson Þormar, fyrsti formaður stjórnar
Sparisjóðs Norðfjarðar.
Ljósmynd: Skjala- og myndasafn Norðfjarðar.

Fyrstu lög Sparisjóðs Norðfjarðar voru prentuð fremst í viðskiptabækur (sparisjóðsbækur) sjóðsins sem gerðar voru áður en hann hóf starfsemi. Lögin voru í 18 greinum og hljóðuðu fyrstu þrjár greinarnar svo:

1. gr. Sparisjóðurinn er stofnaður til að geyma og ávaxta fyrir íbúa Norðfjarðar peninga; þó tekur hann einnig geymslufé af utansveitarmönnum. Stjórnendur sjóðsins skulu eiga heima í Neskauptúni.
2. gr. Til tryggingar því, að geymslufé sjóðsins verði eigi glatað og að sjóðurinn standi í skilum, skal hann hafa ábyrgðarmenn fyrir ekki minni upphæð en 10000 krónum, með ekki skemri en þriggja ára fresti til uppsagnar ábyrgðinni. Ábyrgðarbréfin skal geyma hjá stjórn sjóðsins og færa endurrit af þeim inn í gjörðabók sparisjóðsins.
3. gr. Nú deyr ábyrgðarmaður eða segir upp ábyrgð sinni, þá skal forstöðunefnd sparisjóðsins fá til annan ábyrgðarmann í hans stað.

Auglýsing um stofnun Sparisjóðs Norðfjarðar
Auglýsing um stofnun Sparisjóðs Norðfjarðar birtist í Lögbirtingablaðinu 2. september 1920.

Að loknum stofnfundi Sparisjóðs Norðfjarðar hóf stjórnin að undirbúa starfrækslu sjóðsins og þurfti þá ýmsu að sinna. Sunnudaginn 22. ágúst kom hún saman á fundi í þeim tilgangi að ræða og yfirfara upphaf starfseminnar en ráðgert var að opna afgreiðslu sjóðsins þann 1. september. Fram kemur í fundargerð þessa fundar að stjórninni hafði ekki enn tekist að útvega húsnæði fyrir afgreiðsluna en hins vegar var ákveðið að hún skyldi vera opin eina klukkustund í viku hverri og yrði opnunin auglýst. Ljóst var að opnun Sparisjóðs Norðfjarðar var í augsýn og hafði undirbúningur starfseminnar gengið ágætlega frá því að stofnfundurinn var haldinn.