24 - Aldargamall sparisjóður

Sparisjóður Austurlands 100 ára
Sparisjóður Austurlands 100 ára

Árið 2020 er afmælisár, en á því ári verður Sparisjóðurinn 100 ára. Sparisjóður Norðfjarðar var stofnaður 2. maí 1920 en tók til starfa 1. september sama ár. Sjóðurinn bar nafnið Sparisjóður Norðfjarðar til ársins 2015 en þá var nafni hans breytt í Sparisjóður Austurlands. Á afmælisárinu verða birtir þættir um sögu sjóðsins á heimasíðu hans, en í þeim verður einnig fjallað almennt um sögu sparisjóða á landinu.

24 Aldargamall sparisjóður

Það er full ástæða til að gera grein fyrir stöðu Sparisjóðs Austurlands á þeim tímamótum þegar sjóðurinn nær hundrað ára aldri. Hægt er að fullyrða að þessi austfirska peningastofnun lifir góðu lífi og hefur fullkomlega náð sér af því áfalli sem efnahagshrunið árið 2008 var. Sjóðurinn hefur jafnt og þétt styrkt stöðu sína á síðustu árum og er því fullfær um að gegna því hlutverki sem honum er ætlað. Hér á eftir verða taldir upp mikilvægir þættir sem einkenna stöðu sparisjóðsins á aldarafmæli hans árið 2020.

  • Starfsmenn sparisjóðsins eru sex talsins og búa þeir yfir mikilli reynslu. Almennt má segja að alla tíð hafi starfsmennirnir sýnt sjóðnum mikla tryggð og hafa margir þeirra gegnt störfum hjá honum drjúgan hluta starfsævinnar.
  • Sjóðurinn vill vera góður valkostur fyrir viðskiptavini. Hann hefur þá sérstöðu að vera lítil stofnun og geta veitt persónulega þjónustu. Viðskiptavinir geta auðveldlega haft beint samband við alla starfsmenn sjóðsins augliti til auglitis, í síma eða í tölvu. Viðskiptavinum sjóðsins hefur fjölgað jafnt og þétt á síðari árum.
  • Mikil áhersla er lögð á að afgreiðsla allra erinda taki skamman tíma. Ákvarðanir eru teknar á staðnum en ekki vísað til fjarlægs ákvörðunarvalds. Staðbundin þekking er mikil innan sjóðsins og auðveldar það og flýtir fyrir að niðurstaða fáist í hverju máli.

Starfsfólk sparisjóðsins árið 2020
Starfsfólk Sparisjóðs Austurlands á yfirstandandi afmælisári

  • Sparisjóðurinn uppfyllir allar þær kröfur sem hið opinbera gerir til peningastofnana en náið er fylgst með starfsemi þeirra.
  • Viðskiptavinir Sparisjóðs Austurlands koma víða að. Neskaupstaður og nágrenni er rótgrónasta markaðssvæðið en allmargir íbúar nágrannabyggða skipta einnig við sjóðinn. Þá er áberandi að brottfluttir Austfirðingar og fólk sem búið hefur tímabundið á Austurlandi haldi áfram viðskiptum við sjóðinn.
  • Hlutafélagið Sparisjóður Austurlands var stofnað árið 2015. Hluthafar eru 93 talsins. Ríkissjóður á tæplega 50% hlufjár og sveitarfélagið Fjarðabyggð á 22%. Aðrir hluthafar eru einstaklingar og félög.
  • Unnið er að því að uppfæra öll upplýsingakerfi sparisjóðsins, þar á meðal heimabanka. Bráðlega er von á því að sjóðurinn bjóði upp á svonefnt greiðsluapp í síma. Almennt má segja að sjóðurinn leggi kapp á að veita nútímanlega þjónustu.
  • Á aldarafmæli Sparisjóðs Austurlands nálgast innlánin sjö milljarða króna og útlánasafnið er tæplega sex milljarðar. Eigið fé sjóðsins nálgast einn milljarð króna og hefur það aukist jafnt og þétt á undanförnum árum.
  • Sparisjóðurinn leggur árlega 5% af hagnaði fyrir skatta í svonefndan samfélagssjóð. Félagasamtök njóta styrkjanna og er lögð áhersla á þeir renni til íþróttafélaga og félaga sem sinna menningar- og líknarstarfsemi. Þá hafa til dæmis hinar ýmsu bæjarhátíðir á Austurlandi verið styrktar. Tekið skal fram að sparisjóðurinn styrkir ýmis verkefni fyrir utan þá styrki sem veittir eru úr sjóðnum. Frá árinu 2012 hafa á þriðja tug milljóna króna runnið í samfélagssjóðinn.

Afgreiðsla sparisjóðsins
Afgreiðslusalur Sparisjóðs Austurlands í Neskaupstað í nóvember 2020. Innréttingum og skipulagi salarins var breytt fyrr á árinu.

  • Lög heimila sparisjóðum í landinu að vinna saman á mörgum sviðum. Nú eru sparisjóðirnir einungis fjórir talsins. Auk Sparisjóðs Austurlands eru það Sparisjóður Strandamanna, Sparisjóður Höfðhverfinga og Sparisjóður Suður-Þingeyinga. Athyglisvert er að þessir sjóðir voru á meðal þeirra minnstu sem störfuðu í landinu fyrir efnahagshrunið árið 2008.
  • Samstarfsvettvangur sparisjóðanna fjögurra er Samband íslenskra sparisjóða sem hefur starfsstöð sína á Akureyri. Sambandið annast fjölþætta hagsmunagæslu fyrir sparisjóðina og sinnir samvinnuverkefnum á mörgum sviðum. Eitt helsta verkefni sambandsins er að vinna að framþróun þeirrar upplýsingatækni sem sparisjóðirnir nota og tryggja að upplýsingakerfin fái þá þjónustu sem nauðsynleg er. 

Hér með lýkur skrifunum um sögu Sparisjóðs Norðfjarðar, sem síðar fékk nafnið Sparisjóður Austurlands. Hinir sögulegu þættir eru orðnir tuttugu og fjórir talsins og hafa birst á heimasíðu sparisjóðsins á yfirstandandi afmælisári. Vonandi hafa lesendur haft ánægju af því að kynnast sögu þessarar austfirsku peningastofnunar sem hefur lifað tímana tvenna en stendur nú styrkum fótum í því samfélagi sem henni er ætlað að þjóna.