21 - Samstarf sparisjóða

Sparisjóður Austurlands 100 ára
Sparisjóður Austurlands 100 ára

Árið 2020 er afmælisár, en á því ári verður Sparisjóðurinn 100 ára. Sparisjóður Norðfjarðar var stofnaður 2. maí 1920 en tók til starfa 1. september sama ár. Sjóðurinn bar nafnið Sparisjóður Norðfjarðar til ársins 2015 en þá var nafni hans breytt í Sparisjóður Austurlands. Á afmælisárinu verða birtir þættir um sögu sjóðsins á heimasíðu hans, en í þeim verður einnig fjallað almennt um sögu sparisjóða á landinu.

21 Samstarf sparisjóðanna

Samband íslenskra sparisjóða var stofnað árið 1967. Stjórn og aðalfundur Sparisjóðs Norðfjarðar hafði fagnað fyrirhugaðri stofnun sambandsins og sat Jón Lundi Baldursson sparisjóðsstjóri stofnfund þess.

Sambandinu var ætlað að standa vörð um hagsmuni sparisjóðanna, styrkja starfsemi þeirra og vera málsvari þeirra gagnvart stjórnvöldum. Þá skyldi sambandið beita sér fyrir víðtækri samvinnu sjóðanna, stuðla að hagræðingu og þróun í starfi þeirra og vera þjónustuaðili fyrir þá. Einnig var sambandinu ætlað að gera kjarasamninga fyrir hönd sparisjóðanna og annast önnur verkefni sem því yrðu falin.


Jón Lundi Baldursson
Jón Lundi Baldursson sparisjóðsstjóri sat stofnfund Sambands íslenskra sparisjóða árið 1967 fyrir hönd Sparisjóðs Norðfjarðar.
Ljósmynd: Björn Björnsson

Fyrstu árin var starfsemi sambandsins ekki viðamikil og ekki er hægt að sjá að starfsemi þess hafi haft mikil áhrif á Sparisjóð Norðfjarðar. Þó mun sambandið hafa stuðlað að samræmingu á bókhaldi sjóðanna og gerð ýmissa eyðublaða auk þess sem það kom fram gagnvart Seðlabankanum fyrir þeirra hönd.

Um 1980 var starfsemi Samband íslenskra sparisjóða efd til mikilla muna. Þá var ráðinn sérstakur framkvæmdastjóri fyrir það og um leið jókst starfsemin. Sambandið hóf að vinna að samræmingu á störfum sparisjóðanna á landinu til dæmis varðandi inn- og útlán, vaxtamál og gjaldskrár. Þá hóf sambandið að sinna þeim verkefnum sem tengdust tölvuvæðingu sparisjóðanna.

Árið 1985 voru samþykkt á Alþingi lög um sparisjóði sem kváðu meðal annars á um Tryggingasjóð sparisjóða. Allir sparisjóðir voru skuldbundnir til að eiga aðild að Tryggingasjóðnum, en hann skyldi vera sjálfseignarstofnun með það meginhlutverk að tryggja fjárhagslegt öryggi sjóðanna og full skil á innlánsfé við endurskipulagningu eða slit þeirra. Sérstök stjórn var kjörin á aðalfundi sjóðsins ár hvert. Fyrir setningu laganna árið 1985 hafði hver sparisjóður eigin tryggingasjóð samkvæmt lögum frá 1941.

Lögin frá 1985 heimiluðu Sambandi íslenskra sparisjóða að gangast fyrir stofnun Lánastofnunar sparisjóðanna. Stofnuninnni var formlega komið á fót árið 1986 og hóf hún starfsemi ári síðar. Sparisjóður Norðfjarðar var á meðal þeirra sjóða sem stóðu að stofnun Lánastofnunarinnar, en hún var stofnuð sem hlutafélag og ætlað að starfa í þágu sameiginlegra hagsmuna sparisjóðanna í landinu. Markmið stofnunarinnar var að gera sjóðunum kleift að koma í ríkari mæli til móts við þarfir viðskiptavina sinna og auka samkeppnishæfni sjóðanna gagnvart öðrum bankastofnunum. Í raun má segja að Lánastofnun sparisjóðanna hafi verið hugsuð sem einskonar viðskiptabanki sparisjóðanna og gegndi stofnunin meðal annars hlutverki á sviði erlendra viðskipta.

Hinn 1. janúar 1994 breyttist Lánastofnun sparisjóðanna í Sparisjóðabanka Íslands hf. Þar með urðu viðskiptabankarnir í landinu fjórir en Sparisjóðabankinn hafði þá sérstöðu að vera án beinna samskipta við viðskiptamenn því hver og einn þeirra skipti við sparisjóðina í sinni heimabyggð.

Sparisjóðirnir höfðu með sér samstarf á ýmsum sviðum og var Samband íslenskra sparisjóða helsti samstarfsvettvangur þeirra. Á meðal helstu samstarfsverkefna má nefna markaðsmál, vöruþróun, upplýsingatæknimál og samskipti við eftirlitsaðila og aðra opinbera aðila. Einnig má nefna fræðslumál og samstarfið um Sparisjóðabankann.

Samstarf sparisjóðanna innan Sambands íslenskra sparisjóða gekk alls ekki átakalaust fyrir sig. Helsta ástæða átakanna var ólík stærð sjóðanna. Stóru sjóðirnir, sem einkum störfuðu á höfuðborgarsvæðinu, vildu gjarnan móta stefnu sambandsins en þá birtist sá munur sem var á þeim og smærri sjóðum á landsbyggðunni. Viðhorf forsvarsmanna smærri sjóðanna voru ólík viðhorfum forsvarsmanna hinna stærri og átti það við um framtíðarsýn og fjölmörg hagsmunamál. En þrátt fyrir ágreininginn náðu sjóðirnir samkomulagi um ýmis samstarfsverkefni sem styrktu þá í samkeppni við bankana. Stundum náðist ekki að fylkja öllum sparisjóðunum um samstarfsverkefni en slíkum verkefnum var þá stýrt af fulltrúum þeirra sjóða sem tóku þátt í þeim.

Frá árinu 2005 tók heldur að dofna yfir starfsemi Sambands íslenskra sparisjóða. Um þetta leyti var mikill uppgangur í efnahagslífi, sparisjóðum fór hratt fækkandi og átök áttu sér stað um hvort ætti að breyta sjóðunum í hlutafélög, en fyrsti sjóðurinn sem varð hlutafélag var Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis árið 2007. Ásókn í stofnbréf sparisjóða var mikil á þessum árum og jafnvel boðið í þau á genginu 400. Þær raddir voru áberandi að gamla sparisjóðskerfið væri úrelt og nauðsynlegt væri að nútímavæða sjóðina meðal annars með að gera þá að hlutafélögum. Allt þetta hafði áhrif á sjóðina og veikti samstarf þeirra.

Umsvif Sparisjóðabankans höfðu aukist samhliða auknum umsvifum sparisjóðanna. Á árinu 2006 ákvað hluthafafundur í bankanum að breyta nafni hans í Icebank en það þótti þjálla nafn vegna fyrirætlana um aukna starfsemi bankans erlendis. Síðla árs 2008 var nafni bankans aftur breytt í Sparisjóðabanki Íslands hf. en þá höfðu stærstu eigendurnir, Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis og Byr sparisjóður, dregið sig út úr samstarfinu um bankann.

Sparisjóðabankinn starfaði til ársins 2009 en hann var ein af mörgum fjármálastofnunum sem komst í þrot í kjölfar bankahrunsins 2008.

Samstarf sparisjóðanna á sviði tölvumála skipti þá afar miklu máli og skal hér gerð stuttlega grein fyrir því. Reiknistofa bankanna var stofnuð árið 1973 og áttu sparisjóðirnir aðild að henni. Þegar tölvuumsvif fóru vaxandi kom að því að ákveðið var að stofna Tölvumiðstöð sparisjóðanna árið 1989. Í fyrstu áttu einungis stærstu sparisjóðirnir aðild að Tölvumiðstöðinni en á árinu 1993 voru allir sparisjóðirnir í landinu gengnir til liðs við hana. Tölvumiðstöðin óx og dafnaði á næstu árum og var þá stofnað dótturfélagið Spakur hf. sem annaðist sölu á samnefndu tölvukerfi til fjármálafyrirtækja. Á árinu 2007 urðu tímamót í sögu Tölvumiðstöðvarinnar en þá var nafni hennar breytt í Teris og nafni dótturfélagsins í TerisPlús. Ástæða þess að nöfnunum var breytt var sú að ætlast var til að fyrirtækin færðu út kvíarnar og legðu ekki lengur megináherslu á að þjóna eigendum sínum.

Tölvumiðstöð sparisjóðanna
Tölvumiðstöð Sparisjóðanna var stofnuð árið 1989. Myndin er tekin það ár í afgreiðslusal Sparisjóðs Norðfjarðar.
Ljósmynd: Ari Benediktsson

Bankahrunið 2008 hafði mjög neikvæð áhrif á Teris og varð úr að fyrirtækið sameinaðist Reiknistofu bankanna árið 2012.

Fræðslumiðstöð sparisjóðanna var hleypt af stokkunum árið 1997. Starfsemi stöðvarinnar fólst fyrst og fremst í viðamiklu námskeiðahaldi fyrir starfsfólk sparisjóðanna. Þegar starfið hafði verið mótað var farið að tala um Sparnám. Síðar var einnig talað um Sparnám II en það nám var ætlað stjórnendum og millistjórnendum sparisjóða sem lokið höfðu Sparnámi I eða höfðu háskólamenntun. Námskeiðin sem Fræðslumiðstöðin bauð upp á voru fjölbreytt og var sérstaklega lögð áhersla á að starfsfólk sparisjóða á landsbyggðinni gæti sótt þau.

Eftir fall bankanna árið 2008 tók mjög að draga úr fræðslustarfi Fræðslumiðstöðvarinnar enda sparisjóðirnir orðnir sárafáir. Að vísu var boðið upp á nokkurn fjölda námskeiða árið 2009 en eftir það fjaraði starfsemin út þar til miðstöðin lognaðist út af.

Hin misjafna stærð sparisjóðanna gerði þeim oft erfitt með að starfa saman. Innan Sambands íslenskra sparisjóða hafði hver Sparisjóður eitt atkvæði og þótti stærri sjóðunum það ósanngjarnt fyrirkomulag. Stóru sjóðirnir höfðu bolmagn til að gera ýmislegt sem minni sjóðunum var ómögulegt og fóru þeir oft sínu fram án þess að þeir minni væru með í för. Þá olli það einnig sundrungu innan Sambands íslenskra sparisjóða þegar stærri sjóðirnir á höfuðborgarsvæðinu hættu að virða þau markaðssvæði sem sjóðir höfðu helgað sér og fóru í harða samkeppni við aðra sparisjóði.

Staðreyndin er sú að þó svo að forsvarsmenn sparisjóða víða á landinu hafi farið lofsamlegum orðum um samstarf sparisjóðanna þá áttu sér oft stað mikil átök á samstarfsvettvangi þeirra. Rétt er þó að ítreka að samstarfið leiddi af sér ýmislegt sem einkum hinir smærri sjóðir nutu góðs af. Stundum var jafnvel sagt að sparisjóðirnir ættu tilvist sína samstarfinu að þakka því án þess væru þeir litlir og aumir í samanburði við bankana.