20 - Merki sparisjóðsins

Sparisjóður Austurlands 100 ára
Sparisjóður Austurlands 100 ára

Árið 2020 er afmælisár, en á því ári verður Sparisjóðurinn 100 ára. Sparisjóður Norðfjarðar var stofnaður 2. maí 1920 en tók til starfa 1. september sama ár. Sjóðurinn bar nafnið Sparisjóður Norðfjarðar til ársins 2015 en þá var nafni hans breytt í Sparisjóður Austurlands. Á afmælisárinu verða birtir þættir um sögu sjóðsins á heimasíðu hans, en í þeim verður einnig fjallað almennt um sögu sparisjóða á landinu.

20 Merki sparisjóðsins

Nokkrum árum eftir að Sparisjóður Norðfjarðar hóf starfsemi var gert sérstakt merki fyrir hann. Það mun hafa verið Páll Guttormsson Þormar, fyrsti stjórnarformaður sjóðsins, sem teiknaði merkið en hann var góður teiknari og teiknaði meðal annars einnig merki Íþróttafélagsins Þróttar.
Í merki sparisjóðsins var höfuðáherslan lögð á upphafsstafi sjóðsins og þegar á árinu 1927 var farið að prenta það á víxileyðublöð og önnur eyðublöð sem notuð voru.

Merki Sparisjóðs Norðfjarðar
Merki Sparisjóðs Norðfjarðar sem farið var að nota fljótlega eftir stofnun sjóðsins. Páll Guttormsson Þormar, þáverandi stjórnarformaður sjóðsins, teiknaði merkið.

Þegar tímar liðu var merkið mikið notað í blaðaauglýsingum frá sparisjóðnum en þegar sjóðurinn flutti starfsemi sína í húsið Steininn árið 1938 var afgreiðsla hans fljótlega merkt með stóru skilti á norðurhlið hússins og á því stóð einungis Sparisjóður Norðfjarðar en merkið kom þar ekki við sögu. Fyrir utan skiltið var komið fyrir merki með stöfunum SN við inngang í afgreiðslu sparisjóðsins. Að því kom síðan um 1960 að gert var ljósaskilti með stöfunum SN sem sett var upp yfir útidyrum sjóðsins, en líklega var það fyrsta upplýsta skiltið í Neskaupstað. Síðar var gert ljósaskilti af merki sjóðsins og leysti það gamla skiltið af hólmi . Þetta ljósaskilti var síðan hengt upp á vesturgafl sparisjóðshússins að Egilsbraut 25 þegar sjóðurinn flutti þangað árið 1978.

Fyrsta upplýsta skiltið
Fyrsta upplýsta skiltið í Neskaupstað yfir dyrum sparisjóðsins í Steininum. Mydin er tekin um eða upp úr 1960.
Ljósm.: Guðmundur Sveinsson.

Árið 1983 hófst umræða að frumkvæði Sambands íslenskra sparisjóða um að tekið yrði upp nýtt sameiginlegt merki fyrir sparisjóðina í landinu og myndu þá sjóðirnir hætta að nota sín eigin merki. Þetta sameiginlega merki sem lagt var til að sparisjóðirnir tækju upp var fjögurra laufa smári grænn að lit.
Stjórn Sparisjóðs Norðfjarðar ræddi töluvert um breytingu á merkinu en komst að þeirri niðurstöðu að skynsamlegt væri að merkja sjóðinn með fjögurra laufa smáranum en jafnframt halda sínu eigin merki sem væri vel þekkt á markaðssvæðinu. Fleiri sparisjóðir komust að sambærilegri niðurstöðu.
Eftir þetta notaði Sparisjóður Norðfjarðar merki sjóðsins og fjögurra laufa smárann jöfnum höndum en með tímanum varð fjögurra laufa smárinn þekkt tákn fyrir alla sparisjóði sem störfuðu í landinu.

Hlaupareikningseyðublað
Hlaupareikningseyðublað (tékkávísun) frá þriðja áratug síðustu aldar með merki sparisjóðsins.

Árið 1989 var á ný tekin upp umræða á vettvangi Sambands íslenskra sparisjóða um sameiginlegt merki fyrir alla sparisjóði í landinu. Niðurstaða þeirrar umræðu varð sú að samþykkt var tillaga þess efnis að sparisjóðirnir legðu niður eigin merki en notuðu fjögurra laufa smárann þess í stað.
Fjögurra laufa smárinn
Fjögurra laufa smárinn – sameiginlegt merki sparisjóðanna í landinu.

Eftir samþykkt áðurnefndrar tillögu var merki Sparisjóðs Norðfjarðar ekki notað. Það var ekki verið prentað á eyðublöð sjóðsins og ekki heldur notað í auglýsingum. Í staðinn kom fjögurra laufa smárinn. Ljósaskiltið með merki sjóðsins fékk þó í allmörg ár að hanga uppi á vesturgafla sparisjóðshússins að Egilsbraut 25 en að því kom að það hvarf einnig sjónum manna.
Helstu rökin fyrir því að sparisjóðirnir tækju upp eitt sameiginlegt merki voru þau að með þeim hætti myndu þeir styrkja stöðu sína í samkeppni við bankana og jafnfram vekja athygli á því samstarfi sem ríkti á milli þeirra. Auk þess þótti hentugra og hagkvæmara að auglýsa sparisjóðina undir sameiginlegu merki og einnig einfaldara að framleiða eyðublöð og önnur gögn fyrir þá ef merkið væri sameiginlegt.