19 - Sparisjóður og bankaútibú

Árið 2020 er afmælisár, en á því ári verður Sparisjóðurinn 100 ára. Sparisjóður Norðfjarðar var stofnaður 2. maí 1920 en tók til starfa 1. september sama ár. Sjóðurinn bar nafnið Sparisjóður Norðfjarðar til ársins 2015 en þá var nafni hans breytt í Sparisjóður Austurlands. Á afmælisárinu verða birtir þættir um sögu sjóðsins á heimasíðu hans, en í þeim verður einnig fjallað almennt um sögu sparisjóða á landinu.

19 Sparisjóður og bankaútibú

Við opnun útibús Landsbankans í Neskaupstað gjörbreyttist staða sparisjóðsins. Útibúið veitti sjóðnum samkeppni á marga lund og það gætti nokkurrar spennu á milli peningastofnananna tveggja. Á aðalfundi sparisjóðsins árið 1974 var töluvert rætt um þær breyttu aðstæður sem sjóðurinn starfaði við og samskipti við útibúið.
Fyrir lá að sparisjóðurinn hafði góðan stuðning almennings í byggðarlaginu og hafði töluvert forskot hvað varðaði einstaklingsviðskipti. Hins vegar höfðu stærri fyrirtæki haft mikið af sínum viðskiptum við útibú Landsbankans á Eskifirði eða útibú Útvegsbankans á Seyðisfirði og þau myndu nú hefja viðskipti við nýja útibúið í Neskaupstað. Stjórn sparisjóðsins var mjög einhuga um að reyna eftir mætti að halda rekstri sjóðsins sem mest í fyrra horfi og freista þess að annast öll hefðbundin bankaviðskipti eftir því sem getan leyfði. Jafnframt skyldi lögð áhersla á að sjóðurinn tæki upp allar helstu nýjungar á sviði viðskiptanna sem unnt væri. Fram kom á aðalfundinum 1974 að sparisjóðsmönnum var fullljóst að hvergi mætti slakna á þjónustu sjóðsins við sína viðskiptamenn því keppinauturinn á staðnum væri öflugur og hefði sterkt bakland.
Þegar á fyrsta starfsári útibús Landsbankans í Neskaupstað náði það 25% markaðshlutdeild í byggðarlaginu en hafa verður í huga að viðskiptavinir þess fluttu ekki endilega viðskipti sín frá sparisjóðnum heldur einnig frá útibúum bankanna á Eskifirði og Seyðisfirði.
Á árunum 1977-1988 var hin almenna þróun sú að markaðshlutdeild útibúsins jókst verulega og var svo komið árið 1988 að hún var tæplega 60%. Upp frá þessu óx markaðshlutdeild sparisjóðsins á ný og á árinu 1990 var hún orðin um 50% og hefur aukist talsvert eftir það.


Starfsfólk Landsbankans í Neskaupstað um 1987
Starfsfólk Landsbankans í Neskaupstað um 1987. Landsbankinn veitti Sparisjóðnum samkeppni.

Með tilkomu útibús Landsbankans fjölgaði eðlilega mjög því fólki sem starfaði við fjármálastofnanir í Neskaupstað. Upp úr 1980 má gera ráð fyrir að starfsfólk Sparisjóðs Norðfjarðar og útibús Landsbankans hafi samtals verið um tuttugu talsins og er það athyglisvert í ljósi þess að nú eru starfsmenn þessara tveggja stofnana einungis sjö. Tölvuvæðing og tilkoma einkabanka hefur svo sannarlega fækkað störfum á sviði fjármála í byggðarlagi eins og Neskaupstað.
Viðskiptavinir sparisjóðsins koma víða að. Flestir kom þeir úr Fjarðabyggð en einnig víðar af Austurlandi. Þá halda Austfirðingar oft tryggð við sjóðinn þó svo að þeir hafi flutt búferlum í aðra landshluta. Margir kunna vel að meta persónulega þjónustu sparisjóðsins og finnst þægilegt að eiga viðskipti við hann enda er lögð áhersla á að afgreiða öll erindi fljótt og vel.