17 - Húsnæði sparisjóðsins

Afmælisár Sparisjóðsins
Afmælisár Sparisjóðsins

Árið 2020 er afmælisár, en á því ári verður Sparisjóðurinn 100 ára. Sparisjóður Norðfjarðar var stofnaður 2. maí 1920 en tók til starfa 1. september sama ár. Sjóðurinn bar nafnið Sparisjóður Norðfjarðar til ársins 2015 en þá var nafni hans breytt í Sparisjóður Austurlands. Á afmælisárinu verða birtir þættir um sögu sjóðsins á heimasíðu hans, en í þeim verður einnig fjallað almennt um sögu sparisjóða á landinu.

17 Húsnæði sparisjóðsins

Þegar Sparisjóður Norðfjarðar hóf starfsemi sína fékk hann inni á símstöðinni í Adamsborg en það var þó einungis til bráðabirgða. Fljótlega flutti sjóðurinn starfsemi sína í hús sem var í eigu Björns Jónassonar útvegsmanns, en það stóð í miðju Nesþorpi á milli húsanna Björgvins og Sæbóls. Þetta hús var gjarnan nefnt Litla húsið í daglegu tali eða Sveinubúð, en Sveinbjörg Eiríksdóttir rak verslun í húsinu um tíma. Sparisjóðurinn mun hafa starfað í Litla húsinu fram til ársins 1927. Hann hafði þar tvö herbergi til ráðstöfunar; stærra herbergið var notað  til afgreiðslu- og skrifstofustarfa en minna herbergið var nýtt sem geymsla.Adamsborg árið 1920
Sparisjóður Norðfjarðar hóf starfsemi í húsinu Adamsborg árið 1920. Fljótlega var starfsemin flutt í Litla húsið svonefnda og þar var sjóðurinn til húsa til ársins 1927. Litla húsið er fremst til vinstri á myndinni. Ljósm. Björn Björnsson.

Árið 1927 tók sparisjóðurinn á leigu húsnæði í Nýja kastala, stóru og myndarlegu húsi sem Konráð Hjálmarsson kaupmaður lét reisa. Leigusamningur var gerður þegar sjóðurinn flutti í Nýja kastala og var leigugjaldið 60 krónur á mánuði.

Nýi kastali og Steinninn
Á myndinni er húsið Nýi kastali til vinstri og Steinninn til hægri. Sparisjóðurinn flutti starfsemi sína í Nýja kastala árið 1927 og þar var hún til ársins 1938. Árið 1938 flutti sjóðurinn starfsemina í Steininn og þar var hún í fjörutíu ár eða til ársins 1978. Ljósm. Björn Björnsson.

Í Nýja kastala var öll aðstaða betri en í Litla húsinu enda var húsið nýbyggt og hafði sá hluti sem sparisjóðurinn tók á leigu verið innréttaður sérstaklega með þarfir hans í huga. Húsnæðið var á neðri hæð og hafði sjóðurinn þrjú herbergi til umráða; rúmgott skrifstofuherbergi, viðtalsherbergi sparisjóðsstjóra og litla biðstofu. Viðskiptavinirnir voru yfirleitt afgreiddir í gegnum afgreiðsluop sem var á veggnum á milli biðstofunnar og skrifstofuherbergisins en ef þeir þurftu að ræða við sparisjóðsstjórann var þeim boðið inn í viðtalsherbergið. Í þessu húsnæði starfaði Sparisjóður Norðfjarðar til ársins 1938.

Árið 1936 eignaðist sparisjóðurinn húseignina Steininn á uppboði en Steinninn var næsta hús austan við Nýja kastala. Árið 1938 var síðan tekin ákvörðun um að sparisjóðurinn flytti starfsemi sína í Steininn. Tók sjóðurinn tvö herbergi til eigin afnota og voru þau á götuhæð í húsinu sunnanverðu. Annað herbergið var afgreiðslu- og skrifstofuherbergi en hitt var skrifstofa sparisjóðsstjóra. Viðskiptavinir sparisjóðsins gengu inn í húsið að norðanverðu um dyr á miðju húsi.

Þegar sparisjóðurinn flutti starfsemi sína í Steininn rak fyrsti lyfsalinn í Neskaupstað, Otto Grundtvig, apótek sitt í vesturhluta hússins í götuhæð. Árið 1939 flutti Grundtvig á brott og í kjölfar þess var ákveðið að að sparisjóðurinn myndi færa starfsemi sína í þann hluta Steinsins sem apótekið hafði verið í. Þarna voru tvö herbergi sem sparisjóðurinn nýtti; rúmgott afgreiðslu- og skrifstofuherbergi og skrifstofa sparisjóðsstjóra inn af því. Litlar breytingar voru gerðar á húsinu þegar sparisjóðurinn hóf að nýta það en síðar var það innréttað með þarfir sjóðsins í huga.

Steinninn
Myndin er tekin á hátíðisdegi framan við Steininn sennilega árið 1948. Steinninn er kyrfilega merktur sparisjóðnum með stóru skilti og eins má sjá merki sjóðsins við innganginn til hægri. Eigandi myndar: Jóhann Zoëga.

Sparisjóður Norðfjarðar var lengi til húsa í vesturhluta Steinsins en sjóðurinn seldi hins vegar ýmsum aðra hluta húseignarinnar á árunum eftir 1940. Allt fram til ársins 1963 var húsnæði sjóðsins óbreytt en þá festi hann kaup á vestasta hluta annarrar hæðar hússins og var þar komið fyrir skrifstofu sparisjóðsstjóra. Þessi viðbót kom sér vel enda voru starfsmenn sjóðsins orðnir þrír þegar hér var komið sögu. Um leið og skrifstofa sparisjóðsstjórans á annarri hæðinni var tekin í notkun var neðri hæðin innréttuð á ný og komið fyrir afgreiðsluborði sem hentaði miðað við þær kröfur sem þá voru gerðar.

Á árinu 1966 hófst umræða um að sparisjóðurinn reisti hús sem hentaði vel fyrir starfsemi hans. Sótt var um lóð austan Kvíabólslækjar neðan Egilsbrautar en ekkert varð af framkvæmdum vegna hvarfs norsk-íslensku síldarinnar af Íslandsmiðum og þeim þrengingum sem fylgdu því.

Egilsbraut 25
Sumarið 1978 flutti Sparisjóður Norðfjarðar starfsemi sína í nýbyggingu að Egilsbraut 25. Þar er sjóðurinn enn til húsa. Myndin er tekin haustið 1989. Ljósm. Ari Benediktsson.

Aftur hófst umræða um húsbyggingu árið 1976 og að loknum allítarlegum umræðum var samþykkt að sparisjóðurinn reisti myndarlega byggingu með Lífeyrissjóði Austurlands neðan við Þórhólinn eða að Egilsbraut 25. Framkvæmdir við bygginguna gengu vel og var hún fullgerð sumarið 1978. Neðri hæð hússins var í eigu sparisjóðsins og var þar öllu haganlega fyrir komið auk þess sem traustar geymslur í kjallara tilheyrðu einnig sjóðnum. Það þótti mikið framfaraskref þegar starfsfólk sparisjóðsins yfirgaf Steininn og flutti í nýja húsnæðið.

Frá árinu 1978 hefur sparisjóðurinn haft aðsetur í húsinu að Egilsbraut 25 en á því hafa verið gerðar ýmsar breytingar í samræmi við kröfur tímans. Til dæmis voru allar innréttingar í afgreiðslusal endurnýjaðar árið 1990 og miklar breytingar einnig gerðar á þeim á þessu ári.