13 - Ábyrgðarmenn

Árið 2020 er afmælisár, en á því ári verður Sparisjóðurinn 100 ára. Sparisjóður Norðfjarðar var stofnaður 2. maí 1920 en tók til starfa 1. september sama ár. Sjóðurinn bar nafnið Sparisjóður Norðfjarðar til ársins 2015 en þá var nafni hans breytt í Sparisjóður Austurlands. Á afmælisárinu verða birtir þættir um sögu sjóðsins á heimasíðu hans, en í þeim verður einnig fjallað almennt um sögu sparisjóða á landinu.

13 Ábyrgðarmenn

Áður en Sparisjóður Norðfjarðar var stofnaður árið 1920 höfðu 20 menn gengist í ábyrgð fyrir sjóðinn og ábyrgst upphæð sem nam samtals 15.800 kr. Var þetta framkvæmt í samræmi við þágildandi lög um sparisjóði sem sett voru af Alþingi árið 1915.

Hver ábyrgðarmaður undirritaði síðan ábyrgðaryfirlýsingu áður en sjóðurinn tók til starfa og var undirritunin staðfest af tveimur vitundarvottum svo og af hreppsstjóranum í Neshreppi sem staðfesti að viðkomandi ábyrgðarmaður hefði verið “með fullu ráði og als gáður” þegar hann undirritaði yfirlýsinguna.

Í umræddri ábyrgðaryfirlýsingu var tekið fram hve háa upphæð hver ábyrgðarmaður ábyrgðist en í henni mátti einnig lesa eftirfarandi:

Ábyrgð þessi nær til þess, að svo miklu leyti, sem upphæðin hrekkur til, að sparisjóðurinn standi í skilum við þá menn, sem leggja í hann fé til ávöxtunar, ef varasjóður sparisjóðsins ekki hrekkur. Ábyrgðin nær því einnig til vaxta af innstæðum, þó skal mér aldrei skylt að greiða hærri upphæð en hér að ofan er skráð.

Í ábyrgðaryfirlýsingunni er einnig tekið fram að ábyrgðarmaður geti sagt upp ábyrgð sinni með þriggja ára fyrirvara og skyldi það þá gert skriflega til stjórnar sjóðsins. Einnig var kveðið á um að ef mál risi út af ábyrgðinni þá skyldi það rekið fyrir gestarétti Suður-Múlasýslu á Norðfirði.

Hér skal ítrekað að það voru ábyrgðarmennirnir sem höfðu rétt til að sitja aðalfundi sparisjóðsins og það voru þeir sem kusu stjórn hans.

Fyrstu áratugina sem Sparisjóður Norðfjarðar starfaði bættust fáir í hóp ábyrgðarmannanna eða einungis 10 einstaklingar á fyrstu þremur áratugunum. Eftir það var bætt í hópinn 4-10 einstklingum á 5-10 ára fresti mæstu þrjá áratugina. Alloft var fjöldi ábyrgðarmannanna til umræðu í stjórn sparisjóðsins og einkenndist umræðan fyrst og fremst af því að nauðsyn þótti að afla nýrra ábyrgðarmanna vegna dauðsfalla í hópi þeirra eða vegna þess að þeir höfðu flutt búferlum af viðskiptasvæði sjóðsins. Nánast aldrei sögðu menn upp ábyrgð sinni og því gegndu menn hlutverki ábyrgðarmannsins fram að andláti eða þar til þeir fluttu á brott úr byggðarlaginu.

Margir voru í hópi ábyrgðarmanna áratugum saman þó líklega skáki enginn Birni Björnssyni eldri í þeim efnum. Björn var á meðal upphaflegra ábyrgðarmanna og gegndi hann ábyrgðarmannshlutverkinu þar til hann lést árið 1977 eða í liðlega 57 ár.

Björn Björnsson gengdi ábyrgðarmannahlutverki í 57 ár
Björn Björnsson gegndi ábyrgðarmannshlutverki
í Sparisjóði Norðfjarðar í fimmtíu og sjö ár.

Árið 1985 voru samþykkt á Alþingi ný lög fyrir sparisjóði og var í þeim ákvæði þess efnis að sparisjóðsaðilar eða ábyrgðarmenn hvers sjóðs skyldu eigi vera færri en 30 talsins. Vegna nýju laganna þurfti að fjölga ábyrgðarmönnum sparisjóðsins og ákvað stjórn hans að fjölga þeim umfram það lágmark sem lögin kváðu á um. Árið 1987 var síðan samþykkt að fjölga ábyrgðarmönnunum um 35 og gekk greiðlega að fá einstaklinga til að fallast á að veita umbeðnar ábyrgðir.

Árið 1990 voru ábyrgðarmennirnir 47 talsins og tíu árum síðar voru þeir 85.

Árið 2015 var félagsformi sparisjóðsins breytt úr sjálfseignarstofnun í hlutafélag og þá var nafni sjóðsins breytt um leið í Sparisjóður Austurlands. Við þessa breytingu eignuðust ábyrgðarmenn eða stofnfjáreigendur Sparisjóðs Norðfjarðar hlutabréf í Sparisjóði Austurlands hf. og skiptist hlutaféð á milli hluthafa í sömu hlutföllum og stofnfé á milli stofnfjáreigenda eða ábyrgðarmanna.