100 ára sparisjóður

Í dag, 1. september árið 2020, eru liðin 100 ár frá því að Sparisjóður Norðfjarðar, sem nú ber nafnið Sparisjóður Austurlands, tók til starfa. Hugmyndin að stofnun sparisjóðs á Norðfirði var fyrst rædd innan Málfundafélagsins Austra sem starfaði í Nesþorpi á árunum 1918-1929 og það var Málfundafélagið sem beitti sér fyrir stofnun hans. Nefnd á vegum félagsins hóf að safna ábyrgðarmönnum sem hver og einn ábyrgðist tiltekna upphæð fyrir væntanlegan sparisjóð og áður en til stofnfundar sjóðsins kom höfðu ábyrgðir fengist fyrir 15.800 krónum og voru ábyrgðarmennirnir 20 talsins.

Formlegur stofnfundur Sparisjóðs Norðfjarðar var haldinn 2. maí 1920. Á fundinum voru samþykkt lög fyrir sjóðinn og eins voru kjörnir þrír „forstjórar“ úr hópi ábyrgðarmannanna og var þeim ætlað að undirbúa starfsemi sjóðsins og annast rekstur hans.

Húsnæði fyrir starfsemina fékkst á símstöðinni í húsinu Adamsborg og það var tímamótadagur í norðfirskri sögu þegar þessi fyrsta fjármálastofnun byggðarlagsins hóf starfsemi 1. september árið 1920. Áður en starfsemin hófst höfðu „forstjórar“ sjóðsins tekið ákvörðun um að afgreiðsla hans skyldi vera opin í eina klukkustund í viku hverri.

Á fyrsta starfsdegi sjóðsins var lagt inn á 43 sparisjóðsbækur auk þess sem sjóðurinn keypti tvo víxla á 100 krónur hvorn. Inn á sparisjóðsbækurnar var alls lagt 4.039,05 krónur þennan dag og voru upphæðirnar afar mismunandi eða frá 2 krónum og upp í 1.250 krónur.

Sparisjóður Norðfjarðar þótti fara vel af stað og fljótlega sannaðist að hér var um mikilvæga stofnun að ræða í byggðarlaginu. Sjóðurinn aflaði sér trausts og hann efldist jafnt og þétt. Árið 2015 var sjóðnum breytt í hlutafélag og þá fékk hann nafnið Sparisjóður Austurlands.

Það er full ástæða til að fagna 100 ára afmæli sjóðsins en hann er einn af einungis fjórum sparisjóðum sem starfa á landinu. Þegar sparisjóðirnir voru flestir um 1960 voru þeir yfir 60 að tölu.

Hér verður saga sjóðsins ekki rakin frekar en lesa má þætti um sögu hans sem hafa verið að birtast hér á heimasíðunni allt þetta ár og munu halda áfram að birtast til áramóta. Í tilefni af afmælinu var sett upp skrifstofa með gömlum munum í eigu sjóðsins í afgreiðslusal hans og ráðgert var að halda tónleika, hátíðarfund og efna til opins húss á afmælisárinu en vegna kórónuveirufaraldursins hefur þeim viðburðum verið frestað.