Samruni Arion banka og AFLs sparisjóðs samþykktur

Eftirlitsaðilar hafa samþykkt samruna Arion banka og AFLs sparisjóðs. Áður höfðu stjórn Arion banka og fundur stofnfjáreigenda AFLs sparisjóðs samþykkt samruna fyrirtækjanna. Markmið með samrunanum er aðtryggja að viðskiptavinum AFLs sparisjóðs standi til boða vönduð og alhliða bankaþjónusta til framtíðar.

Framundan er vinna við að sameina daglega starfsemi sparisjóðsins og Arion banka. Um sinn verður starfsemin á Siglufirði og Sauðárkróki rekin með óbreyttu sniði en gert er ráð fyrir að vinnu vegna samrunans verði lokið um mánaðarmótin nóvember/desember. Í kjölfarið mun starfsemin fara fram undir merkjum Arion banka og viðskiptavinir njóta allrar þeirra þjónustu sem bankinn býður upp á.

Að lokinni sameiningu mun Arion banki starfrækja tvö útibú í Fjallabyggð, annað á Ólafsfirði og hitt á Siglufirði. Að auki verður áfram fjarvinnsla fyrir bankann á Siglufirði. Starfsemin á Siglufirði mun öll flytja í húsnæðið að Túngötu 3, þar sem afgreiðsla sparisjóðsins var um árabil, og er vinna við endurbætur á húsnæðinu þegar hafin.

Á Sauðárkróki mun Arion banki starfrækja eitt öflugt útibú þar sem starfsemi sparisjóðsins á Sauðárkróki mun sameinast útibúi Arion banka sem fyrir er á staðnum.

Öll þjónusta við viðskiptavini á Siglufirði og Sauðárkróki verður með óbreyttu sniði fram að samruna, þ.e. öll reikningsnúmer verða þau sömu, greiðslukort halda gildi sínu og aðgangur að netbanka verður óbreyttur. Viðskiptavinir munu fá nánari upplýsingar um þær breytingar sem fylgja samrunanum þegar nær dregur.

AFL sparisjóður hefur á undanförnum árum glímt við mikla fjárhagserfiðleika. Í árslok 2010 var eigið fé sjóðsins neikvætt um rúma 1,2 milljarða króna. Þrátt fyrir að Arion banki hafi á árinu 2011 gefið eftir skuldir til sparisjóðsins að fjárhæð 2,4 milljarðar króna, sem lið í að laga eiginfjárhlutfall sjóðsins, var bókfært eigið fé sparisjóðsins samt sem áður orðið neikvætt um sem nemur 2,3 milljörðum króna um mitt þetta ár. Í því ljósi munu þau ágreiningsmál sem uppi voru á milli sparisjóðsins og Arion banka um lögmæti lána til sjóðsins falla niður. Niðurstaða þeirra myndi aldrei geta leitt til þess að til yrði jákvætt óráðstafað eigið fé í sjóðnum sem væri forsenda stofnunar svokallaðs samfélagssjóðs.