8 - Austfirskir sparisjóðir

Árið 2020 er afmælisár, en á því ári verður Sparisjóðurinn 100 ára. Sparisjóður Norðfjarðar var stofnaður 2. maí 1920 en tók til starfa 1. september sama ár. Sjóðurinn bar nafnið Sparisjóður Norðfjarðar til ársins 2015 en þá var nafni hans breytt í Sparisjóður Austurlands. Á afmælisárinu verða birtir þættir um sögu sjóðsins á heimasíðu hans, en í þeim verður einnig fjallað almennt um sögu sparisjóða á landinu.

Ef horft er til hins gamla Austurlandskjördæmis þá hafa tíu sparisjóðir starfað á því svæði. Sjóðirnir hafa verið misjafnlega öflugir og starfað misjafnlega lengi. Eins og áður hefur komið fram í þessum þáttum var fyrst stofnaður sparisjóður í landshlutanum árið 1868 og var það annar sparisjóðurinn sem starfaði á landinu. Þarna var um að ræða Sparisjóð Múlasýslna sem stofnaður var á Seyðisfirði fyrir forgöngu Ole Worm Smith sýslumanns. Stofnendur sjóðsins voru átta talsins og lögðu þeir 200 ríkisdali í stofnsjóð. Mun sjóður þessi hafa gert töluvert gagn á meðan Smith sýslumaður stýrði honum en síðan er sagt að hann hafi sofnað. Ekki er ljóst hve lengi þessi fyrsti austfirski sparisjóður starfaði en líklegt er að honum hafi verið slitið um 1874.

Ole Worm Smith var danskur að þjóðerni og gegndi hann embætti sýslumanns Norður-Múlasýslu á árunum 1863-1871. Hafði hann aðsetur á Vestdalseyri við Seyðisfjörð. Athyglisvert er að það skuli vera erlendur maður sem fyrstur stuðlaði að stofnun sparisjóðs á Austurlandi en sparisjóðir voru algengir í ýmsum löndum áður en saga þeirra á Íslandi hófst. Smith sýslumanni tókst að sannfæra nokkra öfluga menn í fjórðungnum að standa með sér að stofnun sjóðsins og því varð Sparisjóður Múlasýslna að veruleika.

Ole Worm Smith
Forgöngumaður um stofnun fyrsta austfirska sparisjóðsins, Sparisjóðs Múlasýslna, var Ole Worm Smith sýslumaður Norður – Múlasýslu. Hann var sýslumaður á árunum 1863 -1871.
Mynd: Skjala- og myndasafn Norðfjarðar

Tveir aðrir sparisjóðir voru stofnaðir á Austurlandi fyrir aldamótin 1900. Það voru Sparisjóður Vopnafjarðar sem tók til starfa árið 1890 og Sparisjóður Seyðisfjarðar sem hóf starfsemi árið 1891. Báðir þessir sjóðir urðu skammlífir; Sparisjóður Vopnafjarðar starfaði í 15 ár og Sparisjóður Seyðisfjarðar í 14.
Á fyrstu tveimur áratugum tuttugustu aldarinnar voru þrír sparisjóðir stofnaðir á Austurlandi; Sparisjóður Nesjahrepps, Sparisjóður Eskifjarðar og Sparisjóður Norðfjarðar. Sparisjóður Nesjahrepps lifði í 22 ár en Sparisjóður Eskifjarðar einungis í 4. Sparisjóður Norðfjarðar starfar hins vegar enn, en nafni hans var breytt í Sparisjóður Austurlands árið 2015.

Eftir þetta hafa fjórir austfirskir sparisjóðir séð dagsins ljós; Sparisjóður Fáskrúðsfjarðar, Sparisjóður Fljótsdalshéraðs , Sparisjóður Hornafjarðar og Sparisjóður Hornafjarðar og nágrennis. Sparisjóður Fáskrúðsfjarðar starfaði í 52 ár, Sparisjóður Fljótsdalshéraðs í 9 ár og Sparisjóður Hornafjarðar einnig í 9 ár. Sparisjóður Hornafjarðar og nágrennis var ekki stofnaður fyrr en árið 1991 og starfaði hann undir því nafni í 15 ár eða þar til hann var sameinaður Sparisjóði Vestmannaeyja árið 2006. Sparisjóður Vestmannaeyja hvarf síðan úr sögunni árið 2015 þegar hann var yfirtekinn af Landsbanka Íslands og þar með lauk þjónustu sparisjóðs á því svæði sem Sparisjóður Hornafjarðar og nágrennis hafði starfað á.

Ekki var algengt að austfirskir sparisjóðir kæmu á fót afgreiðslum utan sinnar meginstarfsstöðvar. Þó rak Sparisjóður Hornafjarðar og nágrennis afgreiðslu á Djúpavogi og eftir að hann sameinaðist Sparisjóði Vestmannaeyja voru reknar afgreiðslur bæði á Djúpavogi og Breiðdalsvík. Sparisjóður Norðfjarðar rak síðan afgreiðslu á Reyðarfirði á árunum 1998-2012.

Þegar saga austfirsku sparisjóðanna er könnuð kemur í ljós að einungis tveir þeirra voru lagðir niður en fimm voru yfirteknir af bönkum. Þá tók innlánsdeild Kaupfélags Austur-Skaftfellinga við rekstri Sparisjóðs Nesjahrepps. Yngsti sjóðurinn, Sparisjóður Hornafjarðar og nágrennis, hefur nokkra sérstöðu því hann sameinaðist fyrst öðrum sparisjóði sem síðan var yfirtekinn af banka.
Hér á eftir verður birt tafla yfir austfirsku sparisjóðina og í henni kemur fram starfstími hvers og eins og hvað varð um viðkomandi sjóð:

Nafn Starfstími Hvað varð um sjóðinn
Sparisjóður Múlasýslna 1868-1874? Líklega lagður niður
Sparisjóður Vopnafjarðar 1890-1905 Lagður niður
Sparisjóður Seyðisfjarðar 1891-1904 Yfirtekinn af Íslandsbanka
Sparisjóður Nesjahrepps 1908-1930 Yfirtekinn af innlánsdeild Kaupfélags Austur-Skaftfellinga
Sparisjóður Eskifjarðar 1914-1918 Yfirtekinn af Landsbanka
Sparisjóður Norðfjarðar 1920-  
Sparisjóður Fáskrúðsfjarðar 1922-1974 Yfirtekinn af Landsbanka
Sparisjóður Fljótsdalshéraðs 1958-1967 Yfirtekinn af Búnaðarbanka
Sparisjóður Hornafjarðar 1962-1971 Yfirtekinn af Landsbanka
Sparisjóður Hornafjarðar og nágrennis 1991-2006 Sameinaður Sparisjóði Vestmannaeyja árið 2006. Sparisjóður Vestmannaeyja yfirtekinn af Landsbanka 2015