22 - Tækjabúnaður sparisjóðsins

Árið 2020 er afmælisár, en á því ári verður Sparisjóðurinn 100 ára. Sparisjóður Norðfjarðar var stofnaður 2. maí 1920 en tók til starfa 1. september sama ár. Sjóðurinn bar nafnið Sparisjóður Norðfjarðar til ársins 2015 en þá var nafni hans breytt í Sparisjóður Austurlands. Á afmælisárinu verða birtir þættir um sögu sjóðsins á heimasíðu hans, en í þeim verður einnig fjallað almennt um sögu sparisjóða á landinu.

22 Tækjabúnaður sparisjóðsins

Sparisjóður Norðfjarðar notaði ekkert tæki þegar hann hóf starfsemi árið 1920. Eini búnaðurinn sem sást á skrifstofu sjóðsins var penni og bækur sem fært var í. Allt bókhald var handfært og öll bréf voru handskrifuð. Fyrsta tækið sem sparisjóðurinn festi kaup á var ritvél og víst er að árið 1933 var það eina tækið sem starfsfólk sparisjóðsins notaði.

Seint á fjórða áratugnum festi sparisjóðurinn kaup á handsnúinni margföldunarvél sem þótti mikið þarfaþing. Þá eignaðist sjóðurinn um líkt leyti einfalda reiknivél sem var rafknúin, en hún var einungis notuð í skamman tíma. Margföldunarvélin auðveldaði starfsfólkinu verulega störfin en venjulega var lagt saman og dregið frá án allra hjálpartækja ef notkun áðurnefndrar reiknivélar er undanskilin. Síðar bættist í tækjasafn sjóðsins handvirkar reiknivélar sem nýttust til að framkvæma allar algengustu reikniaðferðir auk þess sem að því kom að nauðsynlegt var að endurnýja ritvélina.

Handsnúin margföldunarvél
Handsnúin margföldunarvél sem Sparisjóðurinn eignaðist seint á fjórða áratug síðustu aldar.
Ljósmynd: Ari Benediktsson.

Árið 1957 voru einu vélar sparisjóðsins handknúnu reiknivélarnar og órafknúin ritvél, en um og uppúr 1960 varð á þessu mikil breyting. Þá festi sjóðurinn kaup á rafknúnum reiknivélum og rafmagnsritvél og þóttu þessi tæki miklu þægilegri og betri en þau tæki sem fyrir voru.

Árið 1959 urðu tímamót hjá sparisjóðnum þegar hann festi kaup á bókhaldsvél og hóf vélabókhald. Tilkoma vélarinnar þótti svo merkileg að boðað var til einskonar blaðamannafundar í sjóðnum til að kynna hvernig vélin virkaði. Til fundarins komu tíðindamenn blaðanna Austurlands og Þórs og skrifuðu um þetta nýja undratæki. Guðrún Jónsdóttir, starfsmaður sparisjóðsins, var send suður til Reykjavíkur þar sem hún dvaldi í tvær vikur og fékk kennslu á vélina í Austurbæjarútibúi Landsbankans. Í skrifum Þórs um vélina var greint frá því að hún byggði á svonefndu lausblaðabókhaldskerfi. Kerfinu var svo lýst:

Höfuðeinkenni þess er, að allir reikningar eru á lausum blöðum eða kortum. Af þessum sökum er fjölda reikninga engin takmörk sett á sama hátt og í bundnum bókum, og því hægt að sundurliða einstaka liði efnahags og reksturs að vild.

Annað megineinkenni þessa kerfis er það, að fært er á kortin og í dagbókina samtímis, með gegnumskrift. Auk þess gerir vélin afrit hlaupareiknings, sem er svo sent hlutaðeigandi viðskiptamanni. Þá reikninga þurfti vitanlega að skrifa sérstaklega áður.

Þessi fyrsta bókhaldsvél sparisjóðsins var eingöngu notuð við bókhald á hlaupareikningum eða tékkareikningum en árið 1965 festi sparisjóðurinn kaup á annarri bókhaldsvél sem notuð var við bókhald á sparisjóðsbókum og til skráningar á víxlum. Á meðan vélabókhaldið var að ryðja sér til rúms hjá sparisjóðnum voru ýmis önnur tæki endurnýjuð enda sífellt að koma á markaðinn fullkomnari reikni- og ritvélar.

Guðrún Jónsdóttir við bókhaldsvélina
Guðrún Jónsdóttir við bókhaldsvélina sem Sparisjóðurinn festi kaup á árið 1959.
Ljósmynd: Ari Benediktsson.

Bókhaldsvélar sparisjóðsins voru í notkun allt þar til tölvur leystu þær af hólmi. Haustið 1979 hófst tölvuvæðing Sparisjóðs Norðfjarðar en þá var fengin tölva af gerðinni IBM og var hún tengd Reiknistofu bankanna. Notkun tölvunnar breytti miklu fyrir starfsfólkið sem skráði upplýsingar hvers dags á diskling en í lok dagsins voru þær sendar Reiknistofu bankanna til úrvinnslu og næsta morgun lágu fyrir útprentaðir listar frá stofunni. Í fyrstu voru einungis skráðar í tölvuna allar ávísanir sem bárust sparisjóðnum og auðveldaði það mjög að fylgjast með tékkareikningum. Síðan var farið að nota tölvubúnaðinn til annarra verkefna: Upplýsingar um sparisjóðsbækur voru tölvuskráðar og einnig víxlar og skuldabréf, þá var farið að vinna aðalbók sjóðsins í tölvu og á árinu 1988 var byrjað á að reikna laun starfsfólks sjóðsins í tölvu.

Áður en tölva var fyrst tekin í notkun í sparisjóðnum dvaldi Lilja Karlsdóttir, starfsmaður sjóðsins, um hálfs mánaðar skeið hjá Sparisjóði Hafnarfjarðar þar sem hún kynnti sér tölvunotkun. Og áður en farið var að skrá víxla og skuldabréf í tölvuna fór Klara Ívarsdóttir, skrifstofustjóri, til námsdvalar hjá sama sparisjóði. Eins komu menn frá Sparisjóði Hafnarfjarðar og Sambandi íslenskra sparisjóða til Neskaupstaðar í þeim tilgangi að leiðbeina starfsfólki sparisjóðsins þegar ný skref voru stigin á sviði tölvuvæðingarinnar.

Segja má að tölvuvæðingin hafi auðveldað störfin í sparisjóðnum á flestum sviðum. Miklu betri upplýsingar fengust frá degi til dags um þróun mála og má nefna að auðveldara var að fylgjast með vanskilum og allir vaxtaútreikningar gerðust með sjálfvirkum hætti.

Guðrún Sólveig við Kienzle tölvu
Tölvuvæðingin breytti miklu. Guðrún Sólveig Sigurðardóttir að störfum við tölvu um 1990.
Ljósmynd: Ari Benediktsson.

Framfaraskref var stigið á sviði tölvunotkunar þegar komið var á svonefndri beinlínutengingu við Reiknistofu bankanna haustið 1987. Með beinlínutengingunni gerðist það að tölva sparisjóðsins var tengd við tölvubúnað stofunnar og unnið var úr þeim upplýsingum sem færðar voru í tölvu sjóðsins strax. Þetta hafði í för með sér að allar upplýsingar og úrvinnsla barst sjóðnum fyrr en áður og auðveldaði starfsfólkinu enn frekar að öðlast yfirsýn. Þá breytti beinlínutengingin hlutverki gjaldkera sjóðsins verulega þar sem þeim var ætlað að annast tölvuskráningu allra færsla. Af þessari ástæðu var gjaldkerum sparisjóðsins fjölgað í þrjá en áður hafði einungis einn starfsmaður sinnt gjaldkerastörfum.

Áður en beinlínutengingin kom til fór Kittý J. Óskarsdóttir, starfsmaður sparisjóðsins, á námskeið hjá Sparisjóði vélstjóra í Reykjavík þar sem hún kynnti sér hvað fólst í tengingunni. Þá komu einnig starfsmenn tölvufyrirtækisins Einars J. Skúlasonar hf. austur til að setja upp nauðsynlegan búnað vegna beinlínutengingar ásamt því að leiðbeina starfsfólkinu um notkun hans.

Eftir þetta hafa framfarir á sviði tölvunotkunar orðið miklar og varð samstarf sparisjóðanna í landinu á sviði tölvumála mikilvægur þáttur með tilkomu Tölvumiðstöðvar sparisjóðanna sem stofnuð var árið 1989 . Síðar var nafni Tölvumiðstöðvarinnar breytt í Teris og starfaði það fyrirtæki þar til það var sameinað Reiknistofu bankanna árið 2012. Auk tölvuvæðingarinnar hafa orðið miklar breytingar á tækjabúnaði sparisjóðsins síðustu áratugi. Nefna má sem dæmi að ljósritunarvél þykir nauðsynleg í öllum stofnunum nútímasamfélags og það þótti myndsími einnig um tíma áður en unnt var að senda allskyns gögn með tölvum. Það er allavega ljóst að mikil bylting hefur átt sér stað á sviði tækjabúnaðar Sparisjóðs Norðfjarðar frá því hann tók til starfa og penninn var í reynd flóknasta tækið á skrifstofu hans.