16 - Starfsfólk sparisjóðsins

Afmælisár sparisjóðsins
Afmælisár sparisjóðsins

Árið 2020 er afmælisár, en á því ári verður Sparisjóðurinn 100 ára. Sparisjóður Norðfjarðar var stofnaður 2. maí 1920 en tók til starfa 1. september sama ár. Sjóðurinn bar nafnið Sparisjóður Norðfjarðar til ársins 2015 en þá var nafni hans breytt í Sparisjóður Austurlands. Á afmælisárinu verða birtir þættir um sögu sjóðsins á heimasíðu hans, en í þeim verður einnig fjallað almennt um sögu sparisjóða á landinu.

Eins og fyrr greinir var Tómas Zoëga fyrstur manna ráðinn í fast starf við Sparisjóð Norðfjarðar árið 1926 en fram að því höfðu stjórnarmenn eða svonefndir “forstjórar” sinnt flestum störfum sem til féllu. Þegar á árinu 1927 þótti nauðsynlegt að ráða starfsmann með Tómasi og var honum ætlað að sinna afgreiðslu- og skrifstofustörfum. Fyrsti almenni starfsmaðurinn var Guðlaug Jóhannsdóttir og fékk hún brátt viðurnefni vegna starfsins og var almennt kölluð Sparilauga. Það var fósturfaðir Guðlaugar, Páll Guttormsson Þormar, sem útvegaði henni starfið í sparisjóðnum en eins og fram hefur komið var Páll formaður stjórnar sjóðsins. Guðlaug lýsti starfi sínu svo:

Þegar ég hóf störf hafði Tómas Zoëga veitt sjóðnum forstöðu um tíma og hann kenndi mér til verka. Ég var eins konar lærlingur hans.
Ég starfaði í sjóðnum með einu stuttu hléi allt til ársins 1936 og á þessum árum þurfti ýmsu að sinna þó starfsemi peningastofnana yrði auðvitað miklu viðameiri og flóknari síðar. Það var í verkahring Tómasar að hafa samband við banka og fyrirtæki og eins afgreiddi hann öll lán og annaðist innheimtuaðgerðir þegar þess þurfti með. Ég sá hins vegar um dagleg afgreiðslustörf s.s. viðskipti með sparisjóðsbækur, hlaupareikningsviðskipti og víxlaviðskipti. Ég sá einnig um ýmis skrifstofustörf auk þess sem það var í mínum verkahring að gera upp kassann dag hvern og þá mátti ekki muna eyri því Tómas var mikill nákvæmnismaður.

Guðlaug Jóhannsdóttir

Fyrsti almenni starfsmaðurinn var Guðlaug Jóhannsdóttir. Fljótlega var farið að kenna hana við starf sitt og var hún þá kölluð Sparilauga.
Mynd: Skjala og myndasafn Norðfjarðar.


Þau Tómas og Guðlaug störfuðu tvö við sjóðinn til ársins 1933 en þá var þriðji starfsmaðurinn ráðinn. Það var Unnur Zoëga, dóttir sparisjóðsstjórans.

Árið 1941 hóf Jón Lundi Baldursson störf við sjóðinn og þá urðu starfsmennirnir tveir á ný og var svo allt til ársins 1955 en þá urðu þeir aftur þrír. Um 1970 kom síðan fjórði starfsmaðurinn til sögunnar. Eftir 1976 hóf starfsmönnunum að fjölga verulega enda fóru umsvif sparisjóðsins vaxandi og fjölbreytni starfseminnar varð meiri en áður. Árið 1986 voru stöðugildi í sparisjóðnum orðin sjö og árið 1990 voru þau níu talsins. Árið 2000 hafði stöðugildunum fjölgað í tólf en þá tók þeim að fækka á ný fyrst og fremst vegna tölvuvæðingar. Árið 2010 voru stöðugildin 10,4 og nú eru þau 6,3.

Starfsfólk sparisjóðsins árið 1990
Starfsfólk Sparisjóðs Norðfjarðar árið 1990. Ljósm. Ari Benediktsson

Sparisjóður Norðfjarðar hefur notið þess að ýmsir starfsmenn hafa sinnt störfum lengi hjá honum. Nefna má að fyrsti sparisjóðsstjórinn, Tómas Zoëga, starfaði hjá sjóðnum í 29 ár og arftaki hans, Jón Lundi Baldursson, starfaði enn lengur eða í 35 ár. Þá ber að geta þess að Guðrún Sólveig Sigurðardóttir, núverandi starfsmaður, hefur helgað Sparisjóði Norðfjarðar krafta sína í 34 ár og það á eftir að bætast við þann tíma.
Árið 1979 þótti starfsemi Sparisjóðs Norðfjarðar orðin svo umfangsmikil að nauðsynlegt væri að stofna til starfs skrifstofustjóra. Skyldi það vera í verkahring skrifstofustjórans að að annast daglega verkstjórn auk þess sem hann skyldi vera staðgengill og fulltrúi sparisjóðsstjórans. Fyrsti skrifstofustjórinn var Klara Ívarsdóttir og hóf hún að gegna starfinu í lok árs 1979 og sinnti því allt þar til hún lét af störfum hjá sjóðnum árið 1988. Arftaki Klöru í starfinu var Magnús Brandsson. Magnús tók við skrifstofustjórastarfinu vorið 1989 og gegndi því til ársins 1997 en þá var Vilhjálmur G. Pálsson ráðinn í starfið. Vilhjálmur var skrifstofustjóri sjóðsins til ársins 2004 eða þar til hann tók við starfi sparisjóðsstjóra. Þá var Magnús Jóhannsson ráðinn skrifstofustjóri og hefur hann gegnt því starfi síðan.

Afgreiðsla sparisjóðsins fyrir 30 árum
Afgreiðsla sparisjóðsins fyrir 30 árum. Ljósm. Ari Benediktsson