15 - Sparisjóðsstjórarnir

Árið 2020 er afmælisár, en á því ári verður Sparisjóðurinn 100 ára. Sparisjóður Norðfjarðar var stofnaður 2. maí 1920 en tók til starfa 1. september sama ár. Sjóðurinn bar nafnið Sparisjóður Norðfjarðar til ársins 2015 en þá var nafni hans breytt í Sparisjóður Austurlands. Á afmælisárinu verða birtir þættir um sögu sjóðsins á heimasíðu hans, en í þeim verður einnig fjallað almennt um sögu sparisjóða á landinu.

15 Sparisjóðsstjórarnir

Vart verður annað sagt en að mikil festa hafi einkennt starfsemi sparisjóðsins. Það fólk sem kjörið hefur verið í stjórn hans hefur gjarnan setið lengi og það sama á við um forstöðumenn sjóðsins, sparisjóðsstjórana. Frá því að fyrst var ráðinn forstöðumaður árið 1926 hafa einungis sex eftirtaldir einstaklingar sinnt því starfi:

  • Tómas Zoëga 1926-1955
  • Jón Lundi Baldursson 1955-1976
  • Sigfús Guðmundsson 1976-1979
  • Ragnar Á. Sigurðsson 1979-1988
  • Sveinn Árnason 1988-2004
  • Vilhjálmur G. Pálsson 2004-

Fljótlega eftir að sparisjóðurinn tók til starfa reyndist nauðsynlegt að ráða starfsmann til ýmissa verka. Tómas ZoégaSjóðsstjórnin hóf þá að leita til Tómasar Zoëga sem síðan var ráðinn í fast starf við sjóðinn 1. mars 1926 fyrir 4.000 kr. árslaun. Áhrif Tómasar á starfsemi Sparisjóðs Norðfjarðar urðu ótvíræð. Árið 1928 var hann kjörinn í stjórn sjóðsins og tók við stjórnarformennsku árið 1932 sem hann sinnti síðan allt þar til hann yfirgaf stól sparisjóðsstjóra.

Tómas gegndi starfi sparisjóðsstjóra til ársins 1955 en þá varð hann að láta af störfum vegna fötlunar á sjón.

Jón Lundi BaldurssonArftaki Tómasar í starfi var Jón Lundi Baldursson en hann hafði starfað sem bókari hjá Sparisjóði Norðfjarðar frá árinu 1941. Jón Lundi var sparisjóðsstjóri til ársins 1976 en þá lét hann af störfum fyrir aldurs sakir. Jón Lundi sinnti þó áfram ýmsum störfum í sparisjóðnum allt til ársins 1980. Þegar Jón Lundi hóf að gegna starfi sparisjóðsstjóra tók hann einnig við stjórnarformennsku í sjóðnum en hann hafði átt sæti í stjórninni allt frá árinu 1943. Jón Lundi lét af stjórnarformennskunni árið 1971 en sat í stjórn í heilan áratug eftir það.

 

Sigfús GuðmundssonSigfús Guðmundsson tók við starfi sparisjóðsstjóra af Jóni Lunda en Sigfús hafði starfað í föstu starfi sem bókari hjá sjóðnum frá árinu 1961 auk þess sem hann hafði áður verið sumarstarfsmaður. Sigfús gegndi sparisjóðsstjórastarfinu einungis fram á sumarið 1979 en þá gerðu eftirlitsmenn Seðlabanka Íslands athugasemdir við starfsemi sjóðsins og leiddu þær til þess að Sigfús sagði upp starfi sínu.

Vegna athugasemda Seðlabankans fór fram rannsókn á bókhaldi sparisjóðsins og á meðan hún var framkvæmd sinntu þeir Geirmundur Kristinsson frá Keflavík og Reynir Zoëga, stjórnarformaður sparisjóðsins, störfum sparisjóðsstjóra.

Að því kom að starf sparisjóðsstjóra var auglýst laust til umsóknar og bárust alls fimm umsóknir. Á fundi í septembermánuði ákvað stjórn sjóðsins að ráða Ragnar Á. Sigurðsson til starfans en Ragnar hafði gegnt starfi hafnarstjóra í Neskaupstað.

Ragnar Á. SigurðssonRagnar gegndi sparisjóðsstjórastarfinu til ársins 1988 en hann lést það ár eftir að hafa kennt sjúkleika um nokkra hríð.

Nokkur átök urðu um ráðningu eftirmanns Ragnars í stól sparisjóðsstjóra. Klara Ívarsdóttir, skrifstofustjóri sparisjóðsins, sem hafði stýrt honum í veikindaforföllum Ragnars og fyrst eftir lát hans, lýsti því yfir að hún hefði áhuga á að taka við sparisjóðsstjórastöðunni og það gerði einnig Sveinn Árnason sem starfað hafði sem bæjargjaldkeri í Neskaupstað. Strax og þetta lá fyrir kom í ljós að ágreiningur ríkti innan stjórnar sjóðsins um ráðningu í stöðuna.

Á stjórnarfundi sem haldinn var í júnímánuði 1988 fór fram skrifleg atkvæðagreiðsla um ráðningu sparisjóðsstjórans og urðu niðurstöður hennar þær að Sveinn fékk þrjú atkvæði en Klara tvö. Því var gengið til samninga við Svein um ráðningu hans, kaup og kjör.

Klara sætti sig ekki við niðurstöðu stjórnarinnar og sagði upp störfum hjá sparisjóðnum. Það gerði einnig Ína D. Gísladóttir starfsmaður hans. Jafnréttisráð tók ráðninguna fyrir og komst að þeirri niðurstöðu að stjórn sparisjóðsins hefði brotið jafnréttislög með því að ganga fram hjá Klöru við ráðninguna. Þegar niðurstaða ráðsins lá fyrir var málið tekið fyrir á ný í stjórn sjóðsins en meirihluti stjórnarinnar vildi ekki endurskoða fyrri ákvörðun. Sú afstaða stjórnarinnar leiddi til þess að eina konan sem átti sæti í stjórninni, Sigrún Þormóðsdóttir, sagði sig úr henni. 

Sveinn ÁrnasonJafnréttisráð ákvað þegar hér var komið sögu að höfða mál á hendur sparisjóðnum en þeim málarekstri lauk með sátt sem fól meðal annars í sér að Klöru Ívarsdóttir var greidd tiltekin fjárupphæð. Sérstaklega var tekið fram í sáttinni að hún væri í engu byggð á sjónarmiðum laga heldur einungis gerð til að “binda farsælan endi á málaferlin.”

Sveinn Árnason tók við starfi sparisjóðsstjóra í ágústmánuði 1988 og sinnti hann starfinu í sextán ár en hann lét af störfum árið 2004.

Vilhjálmur G. PálssonArftaki Sveins í starfi sparisjóðsstjóra var Vilhjálmur G. Pálsson en hann hafði gegnt starfi skrifstofustjóra hjá Sparisjóði Norðfjarðar frá árinu 1997. Vilhjálmur hafði mikla reynslu af bankastörfum áður en hann hóf störf hjá Sparisjóði Norðfjarðar. Hann hafði meðal annars starfað hjá Alþýðubankanum og gegnt starfi sparisjóðsstjóra og útibússtjóra á Norðurlandi áður en hann tók við starfi skrifstofustjóra Sparisjóðs Norðfjarðar. Vilhjálmur hefur nú gegnt sparisjóðsstjórastarfinu í sextán ár.