14 - Stjórn sparisjóðsins

Árið 2020 er afmælisár, en á því ári verður Sparisjóðurinn 100 ára. Sparisjóður Norðfjarðar var stofnaður 2. maí 1920 en tók til starfa 1. september sama ár. Sjóðurinn bar nafnið Sparisjóður Norðfjarðar til ársins 2015 en þá var nafni hans breytt í Sparisjóður Austurlands. Á afmælisárinu verða birtir þættir um sögu sjóðsins á heimasíðu hans, en í þeim verður einnig fjallað almennt um sögu sparisjóða á landinu.

14 Stjórn sparisjóðsins

Samkvæmt fyrstu lögum Sparisjóðs Norðfjarðar skyldu stofnendur hans, ábyrgðarmennirnir, kjósa þrjá “forstjóra” úr sínum hópi og var hlutverk þeirra að annast stjórn sjóðsins og hafa yfirumsjón með allri starfsemi hans. Þá var þeim ætlað að ráða starfsmenn ef með þyrfti. Árið 1921 hófu síðan ábyrgðarmennirnir einnig að kjósa varamenn til setu í stjórninni.

Í fyrstu voru stjórnarmenn sjóðsins kjörnir til eins árs í senn en á árinu 1943 var samþykktum sjóðsins breytt þannig að þeir voru kjörnir til fjögurra ára. Árið 1935 var tekin ákvörðun um að fjölga stjórnarmönnum um tvo og skyldi bæjarstjórn Neskaupstaðar annast kjör þeirra. Bæjarstjórnin kaus menn til eins árs setu í stjórn sjóðsins á árunum 1935-1943 en eftir það voru þeir kjörnir til fjögurra ára á meðan þessi háttur var hafður á stjórnarkjörinu. Í fyrstu kaus bæjarstjórnin einungis tvo aðalmenn í stjórnina en árið 1947 var einnig farið að kjósa tvo varamenn.

Hér skal þess getið að árið 1935 hóf bæjarstjórn Neskaupstaðar einnig að kjósa endurskoðendur sparisjóðsins og frá árinu 1943 kaus bæjarstjórnin einnig varaendurskoðendur. Allt til ársins 1986 var þessi háttur hafður á en þá hóf aðalfundur sparisjóðsins að kjósa endurskoðendur á ný í samræmi við ný lög.

Eins og áður hefur komið fram sinntu hinir svonefndu “forstjórar” sjóðsins öllum störfum á hans vegum í fyrstu. Með auknum umsvifum var hins vegar ekki komist hjá því að ráða starfsmann að sjóðnum og var það gert árið 1924. Fyrsti fastráðni starfsmaður Sparisjóðs Norðfjarðar var hins vegar ekki ráðinn til starfa fyrr en 1. mars 1926 og var það Tómas Zoëga. Fyrstu árin sem Tómas starfaði hjá sjóðnum var hann ýmist nefndur starfsmaður eða bókari en brátt leið að því að farið var að nota starfsheitið framkvæmdastjóri og síðan sparisjóðsstjóri.

Ekki var nóg með að Tómas Zoëga hæfi að stýra hinni daglegu starfsemi sparisjóðsins því þegar á árinu 1928 var hann kjörinn í stjórn hans og varð síðan stjórnarformaður árið 1932. Sá háttur, að sparisjóðsstjóri væri jafnframt stjórnarformaður, var á hafður allt til ársins 1971.

Vart verður annað sagt en mikil festa hafi einkennt stjórnun Sparisjóðs Norðfjarðar, sem síðar fékk nafnið Sparisjóður Austurlands. Til vitnis um það má nefna að einungis sjö einstaklingar hafa gegnt formennsku í stjórn sjóðsins á þeim 100 árum sem hann hefur starfað. Stjórnarformennirnir eru eftirtaldir:

Stjórnarformaður Tímabil
Páll Guttormsson Þormar 1920 - 1932
Tómas Zoéga 1932 - 1955
Jón Lundi Baldursson 1955 - 1971
Reynir Zoéga 1971 - 1998
Jóhann K. Sigurðsson 1998 - 1999
Jón Kr. Ólafsson 1999 - 2010
Jón Einar Marteinsson 2010 - 

 

Stjórn Sparisjóðs Norðfjarðar 1990
Stjórn Sparisjóðs Norðfjarðar ásamt sparisjóðsstjóra
á sjötíu ára starfsafmæli sjóðsins 1.september 1990
Ljósmynd: Vilberg Guðnason

Nú kann að vera að lesendum leiki forvitni á að vita hve mikið starf fólst í því að sitja í stjórn sparisjóðsins. Vissulega hefur misjafnlega mikið álag verið á stjórninni frá einum tíma til annars enda verkefnin breytileg og efnahagsástand í þjóðfélaginu sveiflukennt. Það er athyglisvert að fyrstu tvo áratugina sem sjóðurinn starfaði, eða á árunum 1920-1940, hélt stjórn hans einungis sjö bókaða fundi. Eins og fyrr hefur verið greint frá annaðist stjórnin öll afgreiðslustörf fyrstu árin sem sjóðurinn starfaði og þá kann að vera að óþarfi hafi þótt að halda formlega fundi hennar um starfsemina. Hins vegar vekur það óneitanlega nokkra furðu að ekki hafi þótt ástæða til tíðari fundahalda eftir að starfsfólk var ráðið að sjóðnum.

Það var fyrst á styrjaldarárunum 1943-1945 sð stjórnin fór að funda reglulega eða um það bil einu sinni í mánuði. Stríðsgóðærið hafði þarna sitt að segja og umsvif á sviði fjármála urðu meiri en fyrr á starfstíma sparisjóðsins. Á þessum þremur styrjaldarárum fundaði stjórnin 12-16 sinnum á ári en að styrjöldinni lokinni fækkaði fundum verulega og á árabilinu 1946-1957 var algengast að 3-6 stjórnarfundir væru haldnir árlega. Enn fækkaði fundunum á árunum 1958-1965 en þá voru flest árin einungis haldnir 1-2 fundir og þrjú þessi ár kom stjórnin reyndar aldrei saman.

Á tímabilinu 1966-1969 voru fundir stjórnarinnar 3-5 á ári en árið 1970 urðu þáttaskil því þá hóf sjóðsstjórnin yfirleitt að koma saman einu sinni í mánuði og jafnvel oftar þannig að fundir hennar voru á bilinu 11-20 á ári fram til ársins 1978.

Árið 1979 voru haldnir hvorki fleiri né færri en 46 stjórnarfundir en margir þeirra tengdust athugasemdum sem Seðlabankinn gerði við starfsemi sjóðsins og ráðningu nýs sparisjóðsstjóra. Upp frá þessu urðu árlegir fundir stjórnarinnar að jafnaði miklu fleiri en þekkst hafði á fyrri tímabilum eða gjarnan á bilinu 20-30.