12 - Sparisjóðurinn og húsnæðislánin

Árið 2020 er afmælisár, en á því ári verður Sparisjóðurinn 100 ára. Sparisjóður Norðfjarðar var stofnaður 2. maí 1920 en tók til starfa 1. september sama ár. Sjóðurinn bar nafnið Sparisjóður Norðfjarðar til ársins 2015 en þá var nafni hans breytt í Sparisjóður Austurlands. Á afmælisárinu verða birtir þættir um sögu sjóðsins á heimasíðu hans, en í þeim verður einnig fjallað almennt um sögu sparisjóða á landinu.

12 Sparisjóðurinn og húsnæðislánin

Sparisjóður Norðfjarðar hóf snemma að lána húsbyggjendum og íbúðakaupendum fé. Lengi giltu þó engar fastar reglur um slíkar lánveitingar og gátu byggjendur og kaupendur húsnæðis ekki treyst því fullkomlega að lán fengist hjá sjóðnum. Í góðæri síldaráranna svonefndu vaknaði mikill áhugi fyrir húsbyggingum í Neskaupstað og upp úr 1960 hófust umræður á vettvangi bæjarstjórnar um að nauðsynlegt væri að auka möguleika húsbyggjenda til að taka lán og að mótaðar yrðu fastar reglur um slíkar lántökur. Eins mátti sjá skrif í bæjarblöðum um þetta efni. Í kjölfar þessara umræðna kom bæjarstjórn á fót byggingalánasjóði árið 1963 og um svipað leyti tók stjórn sparisjóðsins þessi mál til umræðu en mótaði þó ekki fastar útlánareglur að sinni.

Sparisjóður Norðfjarðar hóf snemma að lána húsnæðislán
Sparisjóður Norðfjarðar hóf snemma að lána húsbyggjendum
og íbúðakaupendum. Myndin er tekin á fimmta áratug síðustu aldar.
Ljósmynd: Björn Björnsson.

Árið 1966 hóf bæjarstjórn Neskaupstaðar á ný að ræða nauðsyn þess að fastar reglur giltu um lán til íbúðabygginga í bænum hjá þeim stofnunum sem slík lán veittu. Á bæjarstjórnarfundi þetta ár flutti Bjarni Þórðarson, þáverandi bæjasrstjóri, eftirfarandi tillögu sem beint var til stjórnar sparisjóðsins;

Þar sem bæjarstjórn er ljóst, hve mikilsvert það er fyrir vöxt og viðgang bæjarins, að fullnægt verði eftirspurn eftir íbúðarhúsnæði, leyfir bæjarstjórnin sér að fara fram á við stjórn Sparisjóðs Norðfjarðar, að hún setji fastar reglur um lánveitingar sparisjóðsins til íbúðabygginga.
Bæjarstjórn telur nauðsynlegt, að í reglum þessum séu ákvæði þess efnis, að hver sá, sem byggir hér í bænum íbúð fyrir sjálfan sig, eigi rétt á föstu 2. veðréttar láni, að uppfylltum þeim skilyrðum, sem sparisjóðurinn setur.
Til þess að þetta nái tilgangi sínum, þarf lánið að vera sæmilega ríflegt og til allmargra ára.

Þessi tillaga var samþykkt í bæjarstjórninni og send stjórn sparisjóðsins.

Á síldarárunum vaknaði áhugi fyrir húsbyggingum í Neskaupstað
Í góðæri síldaráranna vaknaði mikill áhugi fyrir húsbyggingum
í Neskaupstað. Myndin sýnir landlegu síldveiðiflotans sumarið 1960.
Ljósmynd: Björn Björnsson.

Stjórnin tók hana fyrir á fundi 13. apríl og samþykkti þá eftirfarandi:

Stjórnin samþykkir að verja til útlána í nýbyggingar einstaklinga í Neskaupstað 1 til 1,5 millj. kr. árlega, er skiptist í 100 til 150 þús. krónur á íbúð. Lánin skulu vera tryggð með 2. veðrétti í eigninni, næsta á eftir 1. veðréttarláni Húsnæðismálastjórnar ríkisins eða hliðstæðrar stofnunar, veitt til 11 ára, afborgunarlaus fyrsta árið, en greiðist síðan með jöfnum árlegum afborgunum. Lánin veitist eftir því sem fé og önnur skilyrði eru fyrir hendi að mati stjórnarinnar.

Óneitanlega steig stjórn Sparisjóðs Norðfjarðar stórt skref með þessari samþykkt og með henni varð sjóðurinn enn virkari en áður í uppbyggingu bæjarins. Nú gátu húsbyggjendur gengið út frá því að fá fyrirgreiðslu í sparisjóðnum að uppfylltum ákveðnum skilyrðum og varð strax vart við að þessi nýja stefna sjóðsins hefði jákvæð áhrif.

Í blaðaskrifum um þessi mál var bent á hve mikils virði það væri fyrir Norðfirðinga að eiga peningastofnun sem stýrt væri af heimamönnum sem bæru hag heimabyggðarinnar fyrir brjósti. Bent var á að bankarnir hefðu lagt blátt bann við lánum til íbúðabygginga enda tækju þeir einungis mið af almennri bankastefnu í landinu en ekki hagsmunum og þörfum einstakra byggðarlaga. Margir Norðfirðingar eru til frásagnar um að umrædd húsnæðislán sparisjóðsins hafi í reynd gert þeim kleift að koma sér þaki yfir höfuðið á sínum tíma.

Allt frá því að áðurnefnd samþykkt var gerð í stjórn sparisjóðsins árið 1966 hefur hún í grundvallaratriðum verið í gildi. Að sjálfsögðu hafa lánsupphæðir breyst í samræmi við verðlagsþróun svo og lánstími en að öðru leyti hefur samþykktinni verið fylgt.

Ásókn í lán til byggingar eða kaupa á íbúðarhúsnæði á starfssvæði sjóðsins hefur verið misjöfn frá einum tíma til annars og hefur bæði atvinnuþróun og almenn efnahagsþróun í samfélaginu haft þar mest að segja.