Saga sjóðsins

Hér er hægt að stikla á stóru um sögu sjóðsins. Þeir sem vilja vita meira um sjóðinn er bent á að saga hans, Sparisjóður í 70 ár, kom út árið 1992. Hægt er að panta bókina með því að senda tölvupóst á sparnor@sparnor.is eða hringja í sparisjóðsstjóra.

Aðdragandi stofnunar

Þann 5. apríl árið 1919 var fyrst fjallað þá hugmynd að stofna sparisjóð á Norðfirði. Málið var þá tekið til umfjöllunar á fundi í Málfundafélaginu Austra og hafði Stefán Stefánsson kaupmaður framsögu um það. Ákveðið var á fundinum að kjósa þriggja manna nefnd til að athuga möguleikana á stofnun sparisjóðs og áttu þeir Stefán Stefánsson, Björn Björnsson og Vilhjálmur Benediktsson sæti í nefndinni. Hóf nefndin þegar störf og samdi bréf þar sem einstaklingum var boðið að ábyrgjast ákveðna fjárupphæð fyrir væntanlegan sparisjóð á Norðfirði.

Upphaf umrædds bréfs hljóðaði svo:
"Það er víst flestum ljóst hjer, hve afar óþægilegt það er að hafa enga peníngastofnun hjer í þorpinu. Þurfi menn á nokkrum krónum að halda, þá þarf að senda í aðrar sveitir eða jafnvel í aðrar sýslur, og ef menn eiga einhverja penínga sem þeir þurfa ekki að nota í svipinn, verða þeir að liggja með þá rentulausa tímum saman."

Sparisjóðsnefnd Málfundafélagsins Austra gekk greiðlega að fá menn til að ábyrgjast fé fyrir væntanlegan sjóð og undirrituðu tuttugu einstaklingar ábyrgðarmannabréfið. Þegar söfnun ábyrgðarmanna var lokið hófst nefndin handa við að semja lög fyrir sjóðinn og í febrúarmánuði 1920 var ljóst að fátt ætti að vera því til fyrirstöðu að sjóðurinn gæti hafið starfsemi síðar á því ári.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?