Auðkennislyklar á útleið

Sparisjóðurinn hefur ákveðið að hætta notkun auðkennislykla sem leið til auðkenningar í Heima- og Fyrirtækjabanka frá og með næstu áramótum. Samhliða þessari breytingu munu viðskiptavinir ekki þurfa að greiða fyrir SMS sendingar vegna innskráningar frá og með næstu áramótum. Auðkennislyklar voru upphaflega hugsaðir sem skammtímalausn meðan verið væri að innleiða rafræn skilríki og þykir nú tímabært að horfa til þeirrar lausnar sem taka átti við og verður leiðandi í að auðkenna okkur í náinni framtíð.
Eftir breytinguna munu tvær leiðir standa viðskiptavinum til boða annars vegar rafræn skilríki og hins vegar auðkennisnúmer í farsíma (SMS).

Svona skráir/uppfærir þú GSM auðkennisnúmer í bankanum

Til að hægt sé að nýta SMS varaleið við innskráningu í Heima- og Fyrirtækjabanka þarftu að skrá farsímanúmer þitt til að geta fengið sent GSM auðkennisnúmer.Þetta er framkvæmt undir liðnum "Stillingar" í heimabankanum. Þar er liður í leiðarkerfi sem nefnist "Auðkenni". Þegar sá gluggi er opnaður er neðarlega svæði sem heitir "Breyta GSM auðkennisnúmeri". Til að staðfesta nýtt símanúmer þarf að nota auðkennislykil. Gott er að yfirfara aðrar upplýsingar og uppfæra.

Að sjálfsögðu er starfsfólk sparisjóðsins ávallt reiðubúið til að aðstoða ef þörf er á.

Rafræn skilríki uppsetning og notkun

Rafræn skilríki eru örugg og einföld leið til innskráningar í Heima- og Fyrirtækjabanka auk þess sem þau gera notendum kleift að nýta ýmsar sjálfsafgreiðslulausnir á vefnum.

Rafræn skilríki í farsíma jafngilda framvísun persónuskilríkja við auðkenningu og undirritun á netinu. Virkja má skilríkin á farsímanum með því að mæta í næsta útibú banka eða sparisjóðs og hafa meðferðis ökuskírteini eða vegabréf.

Sparisjóðurinn þinn veitir allar frekari upplýsingar.