Sparisjóður Höfðhverfinga


Nýr sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Höfðhverfinga

11.07 2012

Nýr sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Höfðhverfinga

Jón Ingvi er Akureyringur og lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri, auk þess hefur hann sveinspróf í húsasmíði. Hann er byggingaverkfræðingur frá Háskóla Íslands. Síðar lauk hann Masters-prófi í verkfræði frá Danmarks Tekniske Univesitet. Einnig hefur hann lokið prófi í verðbréfaviðskiptum.

Jón Ingvi hefur víðtæka reynslu af fjármálamarkaði en Jón Ingvi vann m.a. hjá Hewlett-Packard í Evrópu í 6 ár. Eftir heimkomu vann Jón Ingvi við áhættustýringu, fjárstýringu og sérhæfðar fjárfestingar hjá Kaupþingi, Landsbanka og Saga fjárfestingarbanka og nú síðast við sérhæfðar fjárfestingar hjá Íslenskum verðbréfum.
Jón Ingvi er 42 ára gamall, giftur Katrínu Káradóttur, viðskiptafræðingi og eiga þau þrjá syni.
Jenný Jóakimsdóttir sem gegnt hefur starfi sparisjóðsstjóra s.l. mánuði hverfur aftur til fyrri starfa hjá sparisjóðnum.

Sparisjóður Höfðhverfinga er ein elsta starfandi fjármálastofnun á landinu en hún á rætur sínar að rekja til Grýtubakkahrepps í Eyjafirði. Sjóðurinn stóð af sér hremmingar bankahrunsins og hefur einn þriggja banka og sparisjóða ekki þurft fjárhagslega aðstoð hins opinbera. Sjóðurinn hyggst stækka töluvert í framtíðinni og hefur stofnfé hans nýlega verið aukið og til stendur að auka það enn frekar. Nýlega opnaði sjóðurinn útibú á Akureyri og hefur sú opnun mælst vel fyrir. Stærstu eigendur sjóðsins eru KEA og Grýtubakkahreppur en markmið sjóðsins er að bjóða viðskiptamönnum sem og öðrum áhugasömum staðbundnum aðilum stofnfé til kaups áður en langt um líður.