Flýtileiðir - SPARNORAðalfundur Sparisjóðs Austurlands 2015

19.04 2016

Aðalfundur Sparisjóðs Austurlands 2015

Rekstur Sparisjóðs Austurlands gekk vel á síðasta ári. Hagnaður fyrir skatta og lögbundið 5% framlag til samfélagslegra verkefna var 36,2 milljónir króna. Framlag til samfélagslegra verkefna nam 1,8 milljónum króna, skattar tæpar 9 milljónir og hagnaður ársins eftir skatta 25,8 milljónir. Útlán jukust á síðasta ári um 9% og innlán um 10%, sem verður að teljast góður árangur. Áætlanir höfðu gert ráð fyrir meiri hagnað, eða um 40 milljónum króna. Grunnstarfsemi sparisjóðsins gekk vel á árinu og ef ekki hefði komið til nokkurra einskiptis kostnaðarliða hefði hagnaður verið í takt við áætlanir.

Rekstrarniðurstaða síðustu ára sýnir að grunnrekstur sjóðsins er smám saman að styrkjast m.a. með jafnri útlánaaukningu síðustu ára. Áætlun yfirstandandi árs gerir ráð fyrir að hagnaður eftir skatta verði rúmar 60 milljónir sem er meiri hagnaður en var árin 2013 og 2014 þegar einskiptis liðir til tekna hækkuðu hagnaðinn um 15-17 milljónir hvort ár upp í um 50 milljónir króna.

Á aðalfundi Sparisjóðs Norðfjarðar ses 14. apríl 2015 var ákveðið að breyta rekstrarformi sjóðsins í hlutafélag og samhliða því var ákveðið að breyta nafni sjóðsins í Sparisjóður Austurlands hf. Sú breyting tók gildi með heimild Fjármálaeftirlitsins 16. apríl 2015 og tók Sparisjóður Austurlands hf. frá og með ársbyrjun 2015 við öllum eignum, skuldum og skuldbindingum Sparisjóðs Norðfjarðar ses. sem samtímis var slitið.

Heildareignir Sparisjóðs Austurlands voru þann 31. desember 2015 rúmir 6 milljarðar og bókfært eigið fé nam 726,7 milljónum króna. Eiginfjárhlutfall er nú 23,0%. Bókfært eigið fé sjóðsins hefur á síðustu þremur árum aukist um tæpar 129 milljónir króna. Fjármálaeftirlitið hefur metið eiginfjárþörf sparisjóðsins og er eiginfjárkrafan 16,9% samkvæmt mati í júlí 2013. Nýlega hafa verið gerðar auknar eiginfjárkröfur með lagasetningu um svokallaða eiginfjárauka og reiknað er með að eiginfjárkrafa á Sparisjóð Austurlands verði orðin 20,7% við lok innleiðingu krafnanna 1. janúar 2019. Sparisjóðurinn er í dag vel ofan við þá kröfu með sitt eiginfjárhlutfall.

Sparisjóðurinn seldi í lok árs 2014 hlutabréf í kortafyrirtækinu Borgun. Bréfin voru seld til félags í eigu stjórnenda Borgunar sem heitir BPS ehf. Sparisjóðurinn átti 1,4 millj. hluti sem var 0,32% af heildar hlutafé Borgunar. Bréfin voru seld á genginu 15,56 fyrir 22,2 milljónir króna og var bókfærður söluhagnaður um 15 milljónir króna. Ef þær upplýsingar sem fram hafa komið í fjölmiðlum undanfarið um virði Borgunar eru réttar gæti virði hlutar Sparisjóðsins á þessum tíma hafa verið umtalsvert hærri en 22,5 milljónir. Fyrir liggur að Landsbankinn er að undirbúa stefnu vegna sölu sinna bréfa. Stjórn Sparisjóðs Austurlands hefur falið lögfræðingi sjóðsins að skoða sölu bréfanna og meta aðgerðir í framhaldinu.

Viðskiptavinum Sparisjóðs Austurlands hefur fjölgað mikið síðasta árið og eru nánast í hverri viku nýjir viðskiptavinir að spyrjast fyrir um eða koma í almenn viðskipti bæði í inn og útlánum. Þetta er bæði innan fjórðungs, sem og annars staðar á landinu, og í mörgum tilfellum viðskiptavinir fyrrverandi sparisjóða sem vilja vera áfram í viðskiptum hjá sparisjóði. Sparisjóður Austurlands hefur síðustu árin lagt áherslu á fjölgun viðskiptavina meða auknu markaðsstarfi og er greinilegt að þetta starf er smám saman að skila sér. Stjórn og starfsfólk Sparisjóðs Austurlands stefna ótrauð áfram að frekari vexti og uppbyggingu sjóðsins.

Nánari upplýsingar veitir Vilhjálmur G. Pálsson sparisjóðsstjóri í síma 4701102 eða villi@sparaust.is.