Sameining Sparisjóðs Svarfdæla og Þórshafnar

18.07 2013

Sameining Sparisjóðs Svarfdæla og Þórshafnar

Höfuðstöðvar Sparisjóðs Norðurlands verða á Dalvík og mun hann hafa fimm starfsstöðvar á Dalvík, Þórshöfn, Kópaskeri, Hrísey og Raufarhöfn. Stjórn sjóðsins er skipuð Hólmgeiri Karlssyni, stjórnarformanni, Auði Hörn Freysdóttur, varaformanni, Sigurði Skúla Bergssyni, Jóni Inga Sveinssyni og Kristínu Kristjánsdóttur. Varamenn í stjórn eru Borghildur Freyja Rúnarsdóttir og Þorbjörg Þorfinnsdóttir. Jónas Mikael Pétursson, sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Svarfdæla, mun gegna starfi sparisjóðsstjória Sparisjóðs Norðurlands, en Ragnar Þorgeirsson, sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis, mun gegna starfi útibússtjóra á Þórshöfn og jafnframt verða staðgengill sparisjóðsstjóra.  Starfsmenn Sparisjóðs Norðurlands eru nú 17.

Sjóðirnir hófu viðræður í upphafi árs og er það einróma mat stjórna sjóðanna og stofnfjáreigenda að nauðsynlegt hafi  verið að sameina sjóðina með það fyrir augum að styrkja þá í viðleitni þeirra til að styðja við bakið á atvinnulífi og samfélögum á starfssvæðum sjóðanna. Stjórnir sjóðanna leggja áherslu á að frekari sameiningar séu nauðsynlegar og vona að fleiri samrunar og sameiningar fylgi í kjölfarið til þess að samkeppnisstaða sparisjóða batni og þeir verði virkir á annars einsleitum fjármálamarkaði.

„Með samruna þessara tveggja sjóða teljum við að stigið sé stórt skref í þá átt að verja sparisjóðakerfið, skerf sem gerir þessum sjóðum kleift að fara að horfa fram á veginn á ný. Það sem mestu skiptir í þessu er að með samruna sjóðanna tveggja eykst til muna útlánageta þeirra til einstakra aðila og fyrirtækja og um leið sparast umtalsverðar upphæðir í rekstri sjóðanna. Sá sparnaður sem reiknað er með og nemur 30-35 milljónum árlega er eingöngu tilkominn vegna sparnaðar í opinberum gjöldum, kostnaði við endurskoðun og kostnaði til eftirlitsaðila ásamt því að fækkað er um eina stjórn” segir Hólmgeir Karlsson stjórnarformaður sjóðsins.

“Við sem unnið höfum að þessu í stjórnum sparisjóðanna teljum að hér sé stigið mjög mikilvægt skref í því að efla rekstur sjóðanna.  Með samruna í öflugri einingu eignumst við sparisjóð sem hæfari er til að þjónusta sitt samfélag og markaðssvæði. Meginverkefni þessa sparisjóðs verður að ná að virkja betur á ný sín nærsamfélög bæði á Þórshöfnar- og Dalvíkursvæðinu. Okkur sem að þessu störfum er ljóst mikilvægi þess að ná Sparisjóðunum til að vaxa og eflast á ný með þeirri hugmyndafræði þeirra að geta ræktað og sinnt betur en nokkur önnur fjármálastofnun sínu nærsamfélagi í hinum dreifðari byggðum” segir Hólmgeir ennfremur.

FME hefur í kjölfar samþykktar aðalfunda sjóðanna samþykkt samruna sjóðanna.

Nánari upplýsingar veitir:

Hólmgeir Karlsson, s. 893-9750,

formaður stjórnar Sparisjóðs Norðurlands ses.