Hagnaður af rekstri Sparisjóðs Svarfdæla árið 2012

26.02 2013

Hagnaður af rekstri Sparisjóðs Svarfdæla árið 2012

Eiginfjárhlutfall 16.9% og viðsnúningur á rekstri frá fyrra ári

 

Hagnaður af rekstri Sparisjóðs Svarfdæla á árinu 2012 nam 11 milljónum króna  eftir skatta.  Þetta er viðsnúningur frá árinu 2011 þegar tap af rekstri sjóðsins nam 48 milljónum. Hreinar rekstrartekjur ársins námu 197 milljónum samanborið við 137 milljónir árið áður.

Eigið fé sjóðsins nam 252 milljónum í árslok. Á árinu var stofnfé sjóðsins lækkað um 192 milljónir  til að jafna neikvæðan varasjóð og jafnframt var stofnfé aukið um 10 milljónir  með aðkomu Tryggingarsjóðs sparisjóða.

Eiginfjárhlutfall sparisjóðsins er 16,9% í árslok 2012 en lögbundið lágmark er 8,0%. Í tengslum við fjárhagslega endurskipulagningu sjóðsins gerði Fjármálaeftirlitið þá kröfu að eiginfjárhlutfall sjóðsins væri ekki lægra en 16%.

„Það er ánægjulegt að rekstur sjóðsins gekk vel á árinu 2012 þrátt fyrir erfitt rekstrarumhverfi. Þá tókst okkur að mæta kröfu Fjármálaeftirlitsins um 16% eiginfjárhlutfall sem gefur okkur svigrúm til að huga vandlega að framtíðinni. Rekstrarumhverfi lítilla fjármálafyrirtækja er krefjandi, skattar og álögur hafa aukist á sama tíma og samkeppnin hefur harðnað. Sparisjóðirnir í landinu þurfa því að sameinast og vinna betur saman ef þeir vilja vera raunverulegur valkostur við stærri bankana til framtíðar,“ segir Helga Björk Eiríksdóttir, stjórnarformaður Sparisjóðs Svarfdæla.

Heildareignir sparisjóðsins námu 3.433 milljónum í árslok 2012 og jukust um 1,6% á milli ára. Útlán sjóðsins námu 2.301 milljón í árslok samanborið við 2.352 milljónir í lok árs 2011.

„Við höfum tekið til í eigna- og útlánasöfnum sjóðsins og teljum afskriftarþörfina vera í ásættanlegu horfi. Við höfum þegar gert ráð fyrir ítrustu leiðréttingum erlendra lána.  Auk þess höfum við sýnt mikið aðhald í rekstrinum undanfarin ár og ljóst að ráðdeild verður áfram í fyrirrúmi. Okkar markmið er þó ávallt að veita góða þjónustu við fólk og fyrirtæki í byggðarlaginu,“ segir Jónas Pétursson, sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Svarfdæla.

 

Nánari upplýsingar:

Jónas Pétursson, sparisjóðsstjóri, í síma 460-1800.

Ársreikning sjóðsins má sjá hér.