Sparisjóður Svarfdæla starfar áfram sjálfstætt

07.09 2012

Sparisjóður Svarfdæla starfar áfram sjálfstætt

Tryggingarsjóður sparisjóðanna leggur Sparisjóði Svarfdæla til fjármagn og kaupsamningur sparisjóðsins við Landsbankann fellur niður.

Sparisjóður Svarfdæla (SpSv) og Landsbankinn hf. hafa náð samkomulagi um að fallið verði frá kaupum Landsbankans á rekstri og eignum sparisjóðsins þar sem Tryggingarsjóður sparisjóðanna (TS) hefur fallist á að leggja SpSv til nýtt stofnfé og veita víkjandi lán, þannig að SpSv uppfylli skilyrði Fjármálaeftirlitsins (FME) um 16% eiginfjárhlutfall.

„Við erum ánægð með að SpSv verði vel fjármagnaður og rekinn án undanþágu frá Fjármálaeftirlitinu. Þá erum við þakklát Tryggingarsjóðnum fyrir að leggja sparisjóðnum til það fjármagn sem nauðsynlegt er. Það veitir okkur svigrúm til að móta nýja framtíðarsýn,"segir Helga Björk Eiríksdóttir, stjórnarformaður SpSv. „Við hörmum að geta ekki uppfyllt samning okkar við Landsbankann og þökkum þann stuðning sem bankinn sýndi með því að leggja fram kauptilboð til að tryggja áframhaldandi rekstur fjármálafyrirtækis í Dalvíkurbyggð."

Forsaga málsins er sú að sumarið 2011 var ákveðið að selja 90% hlut ríkisins í SpSv í þeim tilgangi að fá inn nýja aðila til að styrkja rekstur hans og eiginfjárhlutfall. Var hluturinn auglýstur í opnu söluferli í september sama ár. Landsbankinn var eini aðilinn sem skilaði inn bindandi tilboði í stofnfé og gekk Bankasýsla ríkisins, sem fer með eignarhlut ríkisins í fjármálafyrirtækjum, til viðræðna við bankann á þeim grundvelli. Þær skiluðu hins vegar ekki niðurstöðu og var viðræðum um kaup Landsbankans á stofnfé ríkisins því hætt í desember.

SpSv hafði frá því í maí 2011 verið rekinn með heimild til undanþágu frá kröfu Fjármálaeftirlitsins (FME) um 16% eiginfjárhlutfall en hlutfall sjóðsins skv. ársreikningi í árslok 2010 var 10,5%. Heimildin var framlengd fjórum sinnum á árinu en í nóvember var veittur lokafrestur til áramóta.

Í ljósi þeirra skömmu fresta sem SpSv voru veittir á meðan á ferlinu stóð, og þar sem niðurstaða var enn ekki fengin í söluferlinu, leitaði stjórn SpSv til Tryggingasjóðs sparisjóða um fyrirgreiðslu skömmu áður en viðræðum Bankasýslunnar og Landsbankans lauk. Þrátt fyrir að taka jákvætt í erindið setti Tryggingarsjóðurinn nokkur skilyrði fyrir víkjandi láni sem ekki var öll hægt að uppfylla. Aðkoma hans var því ekki raunhæfur möguleiki á þeim tíma.

Þegar samningaviðræðum Bankasýslu um kaup á stofnfé við Landsbanka var hætt gerði Landsbankinn Sparisjóði Svarfdæla tilboð um að kaupa allar eignir og rekstur sjóðsins og taka yfir innstæðuskuldbindingar að fjárhæð 3,2 milljarðar króna. Í ljósi þess að enginn annar aðili hafði sett fram bindandi tilboð og þröngrar stöðu gagnvart skilyrðum FME ákvað stjórn SpSv að taka tilboði Landsbankans. Það var gert með fyrirvara um samþykki stofnfjárhafa, áður en frestur FME rann út um áramót. Tilboð Landsbankans var samþykkt einróma á fundi stofnfjárhafa hinn 24. janúar 2012. Þá samþykktu FME og Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) fyrirhugaðan samruna. Kaupsamningurinn sýndi að Landsbankinn var tilbúinn að tryggja framhald fjármálastarfsemi á Dalvík þegar engin önnur lausn var í augsýn og aðrir héldu að sér höndum.

Nú í lok sumars að áeggjan Samkeppniseftirlitsins leitaði stjórn SpSv aftur til Tryggingarsjóðsins þrátt fyrir að enn ríki óvissa um niðurstöðu málareksturs stofnfjáreigenda gegn SpSv. Í ljósi ákvörðunar Tryggingarsjóðsins um að leggja SpSv til nýtt stofnfé og veita víkjandi lán hafa SpSv og Landsbankinn komist sameiginlega að þeirri niðurstöðu að falla frá kaupsamningi milli aðila án eftirmála og dregið samrunatilkynningu til baka. Stjórn SpSv þakkar Landsbankanum fyrir þann skilning og þau heilindi sem bankinn hefur sýnt í samskiptum sínum við sjóðinn.

Tengiliðir:

Jónas Pétursson, sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Svarfdæla, s. 460 1800 
Helga Björk Eiríksdóttir, stjórnarformaður Sparisjóðs Svarfdæla, s. 460 1800.