Frá starfi Sparisjóðs Suður-Þingeyinga

12.05 2011

Frá starfi Sparisjóðs Suður-Þingeyinga

Sparisjóðurinn studdi fjölda góðra verka á starfsárinu og má þar nefna 1.000.000 kr. styrk til gerðar heimildarmyndar um Laxárdeiluna, en 40 ár eru frá því Miðkvíslarstíflan var sprengd. Þá fékk Styrktarfélag Heilbrigðisstofnunar Þingeyinga 300.000 framlag til kaupa á speglunartæki.

Stjórn Sparisjóðs Suður-Þingeyinga var endurkjörin. Stjórnarformaður er Ari Teitsson og sparisjóðsstjóri Guðmundur E. Lárusson.
Auk hefðbundinna aðalfundastarfa var m.a. gerð grein fyrir hugmyndum nefndar sem lagt hefur mat á valkosti varðandi framtíð sparisjóðanna á Íslandi og var stjórn sparisjóðsins veitt heimild til viðræðna við nærliggjandi sparisjóði um nánara samstarf eða mögulegar sameiningar.
 
Í framhaldi af starfi nefndarinnar var kynnt hugmyndafræði Sparisjóðanna sem byggir á eftirfarandi:

Hlutverk sparisjóðsins er að stunda sjálfbæra svæðisbundna fjármálastarfsemi á grundvelli samfélagslegrar ábyrgðar, starfsemi sem stendur vörð um og þróar atvinnulíf, mannlíf og velferð svæðisins. Markmið sparisjóðsins er að íbúar svæðisins séu stoltir af sparisjóðnum. Sjóðurinn skal láta gott af sér leiða í samfélaginu og lánveitingar og önnur starfsemi hans skal hafa jákvæð áhrif á umhverfi og framtíð svæðisins.

Afkoma rekstrar sparisjóðsins skal standa undir þátttöku hans í góðu mannlífi á svæðinu, hóflegum arði af stofnfé og stöðugri þróun sjóðsins. Sparisjóður er sjálfseignarstofnun, eftir föngum á forræði heimamanna, fjöldahreyfing stofnfjáreigenda sem hefur að markmiði að tryggja hefðbundna og eðlilega fjármálaþjónustu á sínu starfssvæði.

Starfsemi sparisjóðs Suður-Þingeyinga byggir á nálægð við viðskiptavini, heiðarleika og trausti, þekkingu á aðstæðum og þörfum viðskiptavina og svæðis, hóflegum vaxtamun, skynsamlegum útlánum og samstarfi við aðra sparisjóði um að hámarka hagkvæmni og þekkingu í starfi sjóðsins.