Fyrirframgreiðsla viðbótarlífeyrissparnaðar

12.03 2009

Fyrirframgreiðsla viðbótarlífeyrissparnaðar

Hámarksfjárhæð útgreiðslu
Hámarksfjárhæð fyrirframgreiðslu er 1 milljón kr. fyrir skatt, samanlagt úr sjóðum allra vörsluaðila m.v. gildistökudag laganna. Fjárhæðin greiðist út með jöfnum mánaðarlegum greiðslum á 9 mánuðum en ef um lægri fjárhæð en 1 milljón er að ræða styttist greiðslutímabilið hlutfallslega.

Fyrirframgreiðslur munu ekki skerða rétt til barnabóta, vaxtabóta, atvinnuleysisbóta, húsaleigubóta eða greiðslna frá Tryggingastofnun.

Hvernig sæki ég um fyrirframgreiðslu?
Stefnt er að því að móttaka umsókna hefjist 20. mars og hægt verður að sækja um fyrirframgreiðslu á afgreiðslustöðum sparisjóðsins. 

Ef nýta á skattkort skal hafa það meðferðis þegar sótt er um fyrirframgreiðslu.


Hvenær verður greitt út?
Stefnt er að því að fyrirframgreiðsla fari fram einu sinni í mánuði, 20. hvers mánaðar og að fyrsta greiðsla fari fram 20.apríl næstkomandi. Umsókn þarf að berast Sparisjóðnum eigi síðar en 5. dag mánaðar til að fyrsta fyrirframgreiðsla geti átt sér stað 20. sama mánaðar. Fyrirframgreiðsla verður lögð inn á bankareikning á kennitölu sjóðfélaga.


Tekjuskattur af fyrirframgreiðslu
Greiða þarf tekjuskatt, 37,2%, af fyrirframgreiðslu, líkt og um laun væri að ræða. Ef sótt er um 1 milljón kr. í fyrirframgreiðslu, nemur mánaðarleg greiðsla rúmlega 69.000 kr. eftir skatt m.v. 9 mánaða tímabil.