Greiðslujöfnun vegna verðtryggðra fasteignalána

28.11 2008

Greiðslujöfnun vegna verðtryggðra fasteignalána

Hægt er að sækja um greiðslujöfnun í öllum útibúum Sparisjóðsins. Sækja þarf um greiðslujöfnun 11 dögum fyrir gjalddaga, þó aðeins í eitt skipti.

Með greiðslujöfnun er stefnt að tímabundinni lækkun á greiðslubyrði verðtryggðra fasteignaveðlána. Lántaki greiðir af láninu samkvæmt greiðslujöfnunarvísitölu. Lánið er eftir sem áður bundið vísitölu neysluverðs og breytist höfuðstóll lánsins í samræmi við hana. Meðan greiðslujöfnunarvísitalan er lægri en vísitala neysluverðs hækkar höfuðstóll lánsins sem nemur mismuninum og mun lántakandinn greiða þann mismun síðar.

Greiðslubyrði verðtryggðra lána hefur aukist að undanförnu vegna mikillar verðbólgu, sem hefur áhrif á vísitölu neysluverðs. Samhliða því hefur kaupmáttur rýrnað og greiðslubyrði fólks af verðtryggðum fasteignalánum því þyngst. Tilgangur greiðslujöfnunar er að bjóða lántökum leið til þess að létta greiðslubyrðina tímabundið. Greiðslujöfnun felur á engan hátt í sér eftirgjöf á skuldum heldur er í raun um frestun á hluta greiðslna að ræða.

Til lengri tíma litið leiðir greiðslujöfnun til aukins kostnaðar í formi vaxta og verðbóta á upphæðina sem frestast og því er ekki sjálfgefið að fólk kjósi eða hafi hag af greiðslujöfnun. Hver og einn þarf að skoða þetta í ljósi aðstæðna sinna og taka ákvörðun í samræmi við það. Lántakendur geta sagt sig frá greiðslujöfnun síðar á lánstímanum ef aðstæður þeirra breytast til betri vegar.

Nánari upplýsingar um greiðslujöfnun fasteignalána