Forsetaheimsókn í sparisjóðina

14.10 2008

Forsetaheimsókn í sparisjóðina

Eftir hádegismatinn ávarpaði forsetinn starfsmenn sparisjóðanna um allt land í gegnum fjarfundarbúnað og svaraði að því loknu fyrirspurnum þeirra.

„Ég hef alltaf verið ötull stuðningsmaður sparisjóðanna. Þeir eru ekki ein stofnun, heldur samansafn af fjölþættum jurtagarði, sem rekur rætur sínar vítt og breitt í byggðarlögum landsins. Í ljósi þess að aðrar meginfjármálastoðir landsins hafa fallið þá eru sparisjóðirnir í heild sinni það megintré í banka- og fjármálaskógi okkar Íslendinga sem enn stendur“ sagði Ólafur Ragnar. „Og aldrei brýnna en nú að það tré fái að halda sínum styrk. Ef við ætlum að hafa timbur í uppbygginguna þá verðum við að varðveita þann hluta í skóginum sem enn stendur.“

Forsetinn sagðist treysta því að starfsfólk sparisjóðanna myndi leggja sitt af mörkum með almenningi í landinu við að endurreisa íslenskt fjármálakerfi. „Við þurfum að styrkja og endurreisa íslenskt fjármálakerfi og þurfum að gera það í sameiningu. Það enginn einstaklingur til í landinu, hvorki bankamaður, kjörinn forystumaður þjóðarinnar né athafnamaður á vettvangi fyrirtækjanna sem er með einhverja töfralausn um það með hvaða hætti á að endurreisa íslenskt fjármálakerfi. Það verður að vera verkefni okkar allra. Óhjákvæmilegt er að sparisjóðirnir verði þar mikilvægur burðarás, bæði í ljósi sögunnar og í ljósi nálægðar sparisjóðanna við almenning.“

Starfsfólk Sparisjóðsins vill þakka forseta Íslands fyrir heimsóknina og ávarpið.