Nýtt lánakerfi hjá Sparisjóðunum

24.08 2017

Nýtt lánakerfi hjá Sparisjóðunum

Kæri viðskiptavinur,

Sparisjóðirnir eru að taka í notkun nýtt lánakerfi og verða lán flutt yfir í nýja kerfið á tímabilinu frá 23. ágúst – 30. september 2017.  Kerfið er frá Libra og heldur utan um alla afgreiðslu skuldabréfalána sparisjóðanna og innheimtu þeirra.  Með upptöku hins nýja kerfis gefst sparisjóðunum enn betri möguleiki á að þróa áfram þjónustu við viðskiptavini sína, m.a. með bættri upplýsingagjöf og liprari skjalagerð í tengslum við lánveitingar.  Auk þess verður upplýsingagjöf til viðskiptavina og annara aðila sem tengjast viðskiptum skilvirkari.  Libra ehf. sem framleiðir og þjónustar kerfið er íslenskt hugbúnaðarhús með starfsstöðvar í Kópavogi og á Akureyri.  Lánakerfi þeirra er sveigjanlegt fjölmyntu lánaumsýslukerfi með öflugri upplýsingagjöf.  Sparisjóðirnir eru ánægðir að hafa val um íslenska lausn og eru í samstarfi við Libra um þróun á öðrum kerfum sem vonandi leiða til aukinnar notkunar á íslenskum hugbúnaði, bæði á innlendum og erlendum markaði.

Breyttir greiðsluseðlar.

Lán verða ekki öll flutt yfir á sama tíma, en eftir að lán þitt hefur verið flutt yfir í nýja lánakerfið, þá kemur nýr greiðsluseðill í pósti eða í heimabanka.  Eftir að þitt lán hefur verið flutt yfir í nýja lánakerfið verður ekki hægt að greiða greiðsluseðil frá eldra kerfinu.

Greiðsluseðlar í nýja lánakerfinu líta aðeins öðruvísi út en eru í stöðluðu útliti og ættu að vera auðskiljanlegir.  Nýir greiðsluseðlar eru í höfuðbók 66 en voru áður höfuðbók 74 í eldra kerfi, það sést í upplýsingum ofarlega á greiðsluseðlinum, (Banki/hb 11XX66) þar sem fjórir fyrstu stafirnir eru bankanúmer en tveir næstu höfuðbók.   

Hvernig á að greiða

Þeir sem eru í greiðsluþjónustu, skuldfærslu eða beingreiðslu eiga ekki að finna fyrir þessari breytingu.  Sparisjóðir og bankar uppfæra sín kerfi til samræmis við breytingarnar, en ef þið verðið vör við eitthvað óeðlilegt eins og að lán greiðist ekki á tilsettum tíma, hafið þá endilega samband við ykkar sparisjóð.

Þeir sem greiða greiðsluseðlana sína í gegn um heimabanka munu sjá greiðsluseðil birtast í yfirliti yfir ógreidda reikninga um leið og búið verður að stofna þá í nýja lánakerfinu.

Ef þið sjáið eitthvað athugavert við nýjan greiðsluseðil eða ef sjálfvirk skuldfærsla virkar ekki, endilega hafðu samband við þinn sparisjóð.

Sparisjóðurinn þinn þakkar kærlega fyrir skilning þinn og stuðning við innleiðingu nýs lánakerfis.