Greiðslujöfnun gengistryggðra bílalána og - samninga

Hvað felst í greiðslujöfnun með þriggja ára þaki á lengingu samningstíma?
Greiðslujöfnunin miðar að því að færa greiðslubyrði af gengistryggðum bílalánum/bílasamningum í svipað horf og hún var í maí 2008. Hafi samningur verið gerður á tímabilinu 1. júní 2008 til 1. október 2008 verður greiðslubyrðin við upphaf greiðslujöfnunar svipuð og hún var á fyrsta gjalddaga samningsins. Mismunurinn sem verður á reglulegum greiðslum eftir greiðslujöfnun og því sem þær hefðu verið að óbreyttum samningi færist til hækkunar á höfuðstóli skuldarinnar. Gjalddögum fjölgar sem þessu nemur en greiðslutíminn verður þó aldrei lengri en þrjú ár umfram það sem miðað er við í núgildandi samningi.

Ef eftirstöðvar eru á samningi þegar þrjú ár eru liðin umfram núverandi samningstíma getur lántakandi/samningshafi farið fram á samningsslit með því að greiða eftirstöðvar að fullu eða skila bifreiðinni, samkvæmt ákvæðum samnings, til lánveitanda/leigusala án frekari kvaða. Samningur sem stofnað hefur verið til eða var yfirtekinn eftir 1. október 2008 fellur ekki undir þessa skilmála.

Hverjir eiga rétt á greiðslujöfnun?
Allir sem tóku gengistryggð bílalán/gerðu gengistryggða bílasamninga fyrir 1. október 2008 og eru í skilum eiga rétt á greiðslujöfnun.

Hvaða bílalánum/bílasamningum er hægt að fá greiðslujafnað? 
Aðeins einstaklingar eiga rétt á greiðslujöfnun bílalána og bílasamninga.Hægt er að fá greiðslujöfnun á öll gengistryggð bílalán og bílasamninga sem veitt hafa verið einstaklingum vegna bifreiða hér á landi. Ekki er hægt að fá greiðslujöfnun vegna rekstrarleigusamninga og einkaleigusamninga.

Þarf að sækja um greiðslujöfnun?
Já, sækja þarf um hjá viðkomandi eignarleigufyrirtæki.

Hverjum hentar greiðslujöfnun?
Mánaðarleg greiðslubyrði af gengistryggðum bílalánum/bílasamningum sem er greiðslujafnað mun lækka umtalsvert. Þessi kostur hentar því vel þeim sem vilja lækka greiðslubyrði og þar með greiða lánið niður á lengri tíma en upphaflega var ráðgert. Til lengri tíma litið leiðir greiðslujöfnun til aukins vaxtakostnaðar. Því er ekki sjálfgefið að fólk kjósi eða hafi hag af greiðslujöfnun, ráði það við afborganir af óbreyttum samningum.

Hvernig munu greiðslur breytast?
Fyrirkomulagið veltur á viðkomandi eignarleigufyrirtæki. Hjá þeim eignarleigufyrirtækjum sem miða breytinguna við greiðslujöfnunarvísitölu taka mánaðargreiðslur breytingum í takt við breytingar á greiðslujöfnunarvísitölu. Fyrsta afborgun eftir greiðslujöfnun miðast við greiðslu af láninu/samningnum eins og hún var í maí 2008 eða við upphaflega stöðu lánsins/bílasamningsins hafið lánið verið tekið síðar/bílasamningur gerður síðar. Næstu greiðslur taka síðan mið af greiðslujöfnunarvísitölu hvers mánaðar sem Hagstofa Íslands gefur út.

Hjá eignarleigufyrirtæki sem notar viðmiðunargengi til að reikna út hverja greiðslu mun mánaðargreiðsla fylgja myntkörfu samnings, þó þannig að möguleg hækkun mánaðarlegra greiðslna vegna gengisþróunar verður aldrei meiri en 10% hærri en svaraði til gengis myntkörfu í maí 2008. Hafi samningur verið gerður í júní 2008 eða síðar mun fyrsta greiðsla láns/bílasamnings eftir að greiðslujöfnun hefst, taka mið af upphaflegri stöðu lánsins/bílasamningsins við undirritun.

Hve mikið lækkar greiðslubyrðin?
Lækkunin ræðst annars vegar af samsetningu myntkörfunnar og útgáfudegi samningsins hins vegar og verður því ekki hin sama á öllum lánum/bílasamningum. Algeng lækkun á greiðslubyrði verður á bilinu 20–30%.

Geta vextir af greiðslujöfnuðu bílaláni/bílasamningi breyst?
Greiðslujöfnun hefur ekki í för með sér breytingu á vaxtakjörum. Engu að síður geta vextir breyst á lánstímanum/samningstímanum, líkt og gert er ráð fyrir í núgildandi samningum.

Hvað ef greiðslur af láni/bílasamningi eru ekki í skilum?
Þá þarf viðskiptavinur að leita til fjármögnunarfyrirtækisins sem hann er í viðskiptum við og leita samkomulags um meðferð vanskilanna svo greiðslujöfnun sé möguleg.

Lækkar höfuðstóll lánsins/bílasamningsins?
Nei, höfuðstóllinn lækkar ekki. Markmið greiðslujöfnunarinnar er að lækka greiðslubyrði.

Verða eftirstöðvar afskrifaðar?
Nei. Ef eftirstöðvar eru á bílasamningi þegar þrjú ár eru liðin umfram núverandi samningstíma getur lántakandi/samningshafi farið fram á samningsslit með því að greiða eftirstöðvar að fullu eða skilað bifreiðinni, samkvæmt ákvæðum samnings, til lánveitanda/leigusala án frekari kvaða.

Verður hægt að selja bílinn ef samið hefur verið um greiðslujöfnun?
Já, en áður þarf að semja um fyrirkomulag á meðferð greiðslujöfnunarsamningsins við viðkomandi fjármögnunarfyrirtæki.

Er hægt að segja sig frá greiðslujöfnun á samningstímanum?
Já, en skilyrði fyrir uppsögn er að samningurinn sé í skilum.





Leita