Greiðslujöfnunarúrræði

Á Alþingi voru nýlega samþykktar breytingar á lögum nr. 63/1985. Nýmæli lagabreytinganna felst í því að þak hefur verið sett á greiðslujöfnun fasteignaveðlána. Þannig lengjast lán að hámarki um þrjú ár vegna greiðslujöfnunar umfram gildandi lánasamning.Þetta á við um bæði verðtryggð fasteignaveðlán og fasteignaveðlán í erlendri mynt. Ef einhverjar eftirstöðvar eru af láninu að þeim tíma liðnum falla þær niður ef vanskil eru engin. 

Hér til vinstri má nálgast algengustu svör og spurningar um aðgerðir stjórnvalda. Ekki hika við að hafa samband við útibúið þitt ef þú finnur ekki svarið við spurningu þinni hér.

Hvað felst í aðgerðum stjórnvalda um skuldir heimilanna?

Aðgerðirnar eru tvíþættar:
  • Almennar aðgerðir sem standa öllum til boða og fela í sér lækkun greiðslubyrði fólks af veðlánum og gengistryggðum bílalánum og -samningum
  • Sértækar aðgerðir handa þeim sem þurfa meiri aðstoð en almennar aðgerðir bjóða upp á.

Hvað felst í almennum aðgerðum?
Lækka greiðslubyrði verðtryggðra og gengistryggðra húsnæðislána og gengistryggðra bílalána og -samninga. Greiðslubyrðin verður leiðrétt með greiðslujöfnun. Þannig verður hún svipuð og fyrir hrun. Greiðslubyrði gengistryggðra húsnæðislána og bílalána og -samninga miðast við maí 2008. Greiðslubyrði verðtryggðra lána miðast við janúar 2008.

  • Húsnæði: Greiðslujöfnun húsnæðislána/fasteignaveðlána stendur fólki þegar til boða en með úrræðum stjórnvalda verður sett þak á lengingu láns vegna greiðslujöfnunar. Greiðslutíminn verður því að hámarki þremur árum lengri en upphaflegur lánstími. Hafi lánið ekki verið að fullu greitt að þremur árum liðnum falla eftirstöðvarnar niður ef lánið er í skilum við lok lánstíma.
  • Bílalán og bílasamningar: Greiðslujöfnun eða áþekk aðgerð verður einnig boðin vegna gengistryggðra bílalána og bílasamninga (sjá nánar um útfærslu undir greiðslujöfnun gengistryggðra bílalána og -samninga).

Hvað felst í sértækum aðgerðum?
Aðgerðirnar eru þrenns konar og ætlaðar þeim sem eiga í það miklum greiðsluvanda að leiðrétting eða önnur vægari greiðsluerfiðleikaúrræði nægja ekki.

  • Skuldaaðlögun: Með skuldaaðlögun verða skuldir og eignir lagaðar að greiðslugetu með langtímahag heimilisins í huga. Skuldaaðlögun getur átt sér stað með sölu eða yfirtöku eigna, hlutfallslegri lækkun krafna, framlengingu lána eða tímabundnum gjaldfresti. Vinnubrögð lánastofnana verða samræmd. Að lokinni skuldaaðlögun er miðað við að skuldarinn haldi að hámarki hóflegu húsnæði og bíl og geti staðið undir afborgunum þeirra
  • Opinber greiðsluaðlögun: Opinber greiðsluaðlögun er úrræði sem tók gildi síðastliðið vor. Að undanförnu hefur verið unnið að því að endurbæta þetta úrræði með það að markmið að stytta ferlið og gera úrræðið þjálla og skilvirkara. Frumvarp um breytingar á lögum vegna þessara úrræða er í smíðum og verða breytingarnar kynntar síðar

Hvenær taka aðgerðirnar gildi?
Aðgerðirnar til úrlausnar greiðsluvanda heimilanna taka gildi 1. nóvember 2009 og koma því til framkvæmda mánuði síðar eða 1. desember 2009.

Leita